Fjármögnun


Fjármögnun Landsbankans byggist á þremur meginstoðum - innlánum frá viðskiptavinum, fjármögnun á markaði og eigin fé. Í október 2016 hækkaði alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor’s lánshæfiseinkunn Landsbankans í BBB/A-2 með jákvæðum horfum.

Fara neðar

Innlán frá viðskiptavinum

Stærstur hluti fjármögnunar Landsbankans er í formi innlána frá viðskiptavinum og námu þau 590 milljörðum króna í lok árs 2016, að mestu leyti óverðtryggð og óbundin. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 31 milljarða króna á árinu þrátt fyrir útflæði innlána sem flokkast til aflandskrónueigna í tengslum við losun fjármagnshafta á árinu 2016. Verðtryggð innlán námu 102 milljörðum króna í árslok 2016 og lækkuðu þau um tvo milljarða króna milli ára.

Útgáfa skuldabréfa á erlendum markaði

Landsbankinn hélt áfram að gefa út skuldabréf á erlendum markaði undir EMTN-ramma. Á árinu gaf bankinn út skuldabréf til fjögurra og hálfs ára að fjárhæð 500 milljónir evra, skuldabréf til fjögurra ára að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna, auk þess að stækka þegar útgefna skuldabréfaflokka að fjárhæð 250 milljónir norskra króna og 100 milljónir sænskra króna. Útgáfurnar voru að mestu leyti nýttar til fyrirframgreiðslu á skuldabréfum útgefnum til LBI hf. Landsbankinn var auk þess reglulegur útgefandi víxla og sértryggðra skuldabréfa á innlendum skuldabréfamarkaði.

Samsetning fjármögnunar (m. kr.)
Endurgreiðsluferill lánsfjármögnunar (m. kr.)

Lánshæfismat Standard & Poor's

Flokkur Samtals
Langtíma BBB
Skammtíma A-2
Horfur Jákvæðar
Útgáfudagur Október 2016
   

EMTN-skuldabréfarammi

Landsbankinn hefur sett upp EMTN-ramma að fjárhæð 1,5 milljarðar evra til útgáfu skuldabréfa á erlendum markaði. Fyrstu skref í útgáfum undir rammanum voru tekin haustið 2015 og var útgáfu erlendis haldið áfram á árinu 2016. Landsbankinn gaf út skuldabréf til fjögurra og hálfs ára að fjárhæð 500 milljónir evra í september 2016 og til fjögurra ára að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna í nóvember 2016. Auk þess stækkaði Landsbankinn þegar útgefna flokka í apríl með útgáfu að fjárhæð 250 milljónir norskra króna og 100 milljónir sænskra króna. Landsbankinn nýtti afrakstur skuldabréfaútgáfunnar fyrst og fremst til fyrirframgreiðslu á skuldabréfum útgefnum til LBI hf. Erlendar skuldabréfaútgáfur undir rammanum vega nú þyngst í lántökum bankans.

Skuldabréfaútgáfa til LBI hf.

Samið var um skuldabréfaútgáfu bankans til LBI hf. við tilfærslu eigna og skulda frá LBI hf. til Landsbankans árið 2009. Á árinu 2016 voru skuldabréf í evrum greidd upp að fullu auk þess sem skuldabréf í Bandaríkjadölum voru fyrirframgreidd að hluta. Skuldabréf útgefin til LBI hf. námu samtals 441 milljón Bandaríkjadala í lok árs 2016 og eru á gjalddaga árin 2020 og 2024.

Landsbankinn hefur verið með lánshæfismat frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu Standard & Poor’s frá ársbyrjun 2014. Í október 2016 var lánshæfiseinkunn bankans hækkuð um eitt þrep og er nú BBB/A-2 með jákvæðum horfum.

Sértryggð skuldabréf

Landsbankinn hefur sett upp 100 milljarða króna útgáfuramma fyrir sértryggð skuldabréf. Er útgáfa þeirra fyrst og fremst hugsuð sem fjármögnun fyrir íbúðalán bankans og til að draga úr fastvaxtaáhættu. Regluleg útboð sértryggðra skuldabréfa voru haldin á árinu 2016 og voru tveir nýir flokkar gefnir út á árinu; óverðtryggður flokkur til fimm ára og verðtryggður flokkur til tólf ára, auk þess sem einn eldri flokkur var á gjalddaga. Gerðir voru nýir samningar um viðskiptavakt á eftirmarkaði með sértryggð skuldabréf útgefin af bankanum þar sem viðskiptavökum var fjölgað í þrjá og fjárhæð tilboða hækkuð frá því sem áður var

Víxlar

Landsbankinn setti upp víxla- og skuldabréfaramma að fjárhæð 30 milljarðar króna í maí 2015. Landsbankinn gaf reglulega út víxla á innlendum skuldabréfamarkaði á árinu 2016.

Hlutafé

Þriðja meginstoð fjármögnunar Landsbankans er hlutafé. Eigið fé bankans nam 251 milljörðum króna í lok desember 2016 og lækkaði um 13 milljarða króna á árinu, aðallega vegna 28 milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa á árinu 2016. Bankinn nýtti auk þess heimild til kaupa á eigin hlutum og bauð hluthöfum að kaupa til baka sem nemur allt að 2% útgefins hlutafjár. Á árinu 2016 nýttu 0,6% eigenda hlutafjár sér endurkaupatilboðið. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2016 var 30,2%.

Eiginfjárhlutfall

30,2%