Fjármögnun Landsbankans byggist á þremur meginstoðum - innlánum frá viðskiptavinum, fjármögnun á markaði og eigin fé. Í október 2016 hækkaði alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor’s lánshæfiseinkunn Landsbankans í BBB/A-2 með jákvæðum horfum.
Stærstur hluti fjármögnunar Landsbankans er í formi innlána frá viðskiptavinum og námu þau 590 milljörðum króna í lok árs 2016, að mestu leyti óverðtryggð og óbundin. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 31 milljarða króna á árinu þrátt fyrir útflæði innlána sem flokkast til aflandskrónueigna í tengslum við losun fjármagnshafta á árinu 2016. Verðtryggð innlán námu 102 milljörðum króna í árslok 2016 og lækkuðu þau um tvo milljarða króna milli ára.
Landsbankinn hélt áfram að gefa út skuldabréf á erlendum markaði undir EMTN-ramma. Á árinu gaf bankinn út skuldabréf til fjögurra og hálfs ára að fjárhæð 500 milljónir evra, skuldabréf til fjögurra ára að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna, auk þess að stækka þegar útgefna skuldabréfaflokka að fjárhæð 250 milljónir norskra króna og 100 milljónir sænskra króna. Útgáfurnar voru að mestu leyti nýttar til fyrirframgreiðslu á skuldabréfum útgefnum til LBI hf. Landsbankinn var auk þess reglulegur útgefandi víxla og sértryggðra skuldabréfa á innlendum skuldabréfamarkaði.
Flokkur | Samtals |
Langtíma | BBB |
Skammtíma | A-2 |
Horfur | Jákvæðar |
Útgáfudagur | Október 2016 |
Landsbankinn hefur verið með lánshæfismat frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu Standard & Poor’s frá ársbyrjun 2014. Í október 2016 var lánshæfiseinkunn bankans hækkuð um eitt þrep og er nú BBB/A-2 með jákvæðum horfum.
Þriðja meginstoð fjármögnunar Landsbankans er hlutafé. Eigið fé bankans nam 251 milljörðum króna í lok desember 2016 og lækkaði um 13 milljarða króna á árinu, aðallega vegna 28 milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa á árinu 2016. Bankinn nýtti auk þess heimild til kaupa á eigin hlutum og bauð hluthöfum að kaupa til baka sem nemur allt að 2% útgefins hlutafjár. Á árinu 2016 nýttu 0,6% eigenda hlutafjár sér endurkaupatilboðið. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2016 var 30,2%.