„Grunnrekstur Landsbankans gekk vel á árinu, hreinar vaxta- og þóknanatekjur jukust töluvert frá fyrra ári, en á sama tíma hefur rekstrarkostnaður bankans lækkað. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aldrei mælst hærri og staða bankans á fyrirtækjamarkaði og á fjármálamörkuðum er áfram sterk.“
- Hreiðar Bjarnason, starfandi bankastjóri Landsbankans. Úr fréttatilkynningu 9. febrúar 2017.
Kennitölur | 31.12.2016 | 31.12.2015 |
---|---|---|
Hagnaður eftir skatta | 16.643 | 36.460 |
Hreinar rekstrartekjur | 48.217 | 72.363 |
Hreinar vaxtatekjur | 34.650 | 32.324 |
Arðsemi eigin fjár fyrir skatta | 9,9% | 19,9% |
Arðsemi eigin fjár eftir skatta | 6,6% | 14,8% |
Eiginfjárhlutfall (CAR) | 30,2% | 30,4% |
Vaxtamunur eigna og skulda | 2,3% | 2,2% |
Kostnaðarhlutfall* | 48,4% | 43,8% |
Lausafjárhlutfall LCR alls | 128% | 113% |
Lausafjárhlutfall LCR FX | 743% | 360% |
Heildareignir | 1.111.157 | 1.118.658 |
Útlán í hlutfalli við innlán viðskiptavina | 144,7% | 145,2% |
Stöðugildi | 1.012 | 1.063 |
* Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls / (Hreinar rekstrartekjur - virðisbreytingar útlána)
Allar upphæðir eru í milljónum króna
Rekstrarhagnaður Landsbankans eftir skatta nam 16,6 milljörðum króna á árinu 2016 samanborið við 36,5 milljarða króna á árinu 2015. Arðsemi eigin fjár var 6,6% samanborið við 14,8% arðsemi á árinu 2015. Eiginfjárhlutfall bankans nam 30,2% í árslok 2016 samanborið við 30,4% eiginfjárhlutfall í byrjun ársins.
Vaxtamunur bankans, hlutfall hreinna vaxtatekna af meðalstöðu efnahagsreiknings, hækkaði um 2,3 milljarða króna á milli ára. Á árinu 2016 var vaxtamunurinn 2,3% samanborið við 2,2% árið á undan.
Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 14% á milli ára. Kemur það einkum til vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu, auk breytinga á kortamarkaði, sem skila auknum þjónustutekjum. Aðrar rekstrartekjur dragast saman um tæpa 9 milljarða króna á milli ára sem einkum skýrist af þróun á mörkuðum á árinu. Kostnaðarhlutfall hækkaði milli ára, er 48,4% árið 2016 samanborið við 43,8% árið 2015.
Heildareignir bankans námu 1.111 milljörðum króna í árslok 2016 og lækkuðu þær um tæp 1% á árinu.
Helstu breytingar á eignahlið efnahags Landsbankans á árinu 2016 voru þær að útlán til viðskiptavina hækkuðu um 42 milljarða króna og skuldabréfaeign bankans lækkaði um tæpa 49 milljarða króna.
Á skuldahlið voru þær breytingar helstar að innlán viðskiptavina jukust um tæpa 30,7 milljarða króna. Á árinu 2016 fyrirframgreiddi Landsbankinn 61 milljarð króna inn á skuldabréf sem gefið var út til LBI hf. í október 2008.
Eigið fé bankans lækkar um 13,3 milljarða króna á milli ára, en lækkunina má rekja til 28,5 milljarða króna arðgreiðslu á árinu. Hagnaður bankans nam 16,6 milljörðum króna á árinu 2016.
Eignir | 31.12.2016 | 31.12.2015 | Breyting 2016 | |
---|---|---|---|---|
Sjóður og innstæður í Seðlabanka | 30.662 | 25.164 | 5.498 | 22% |
Markaðsskuldabréf | 154.892 | 203.684 | -48.792 | -24% |
Hlutabréf | 26.688 | 29.192 | -2.504 | -9% |
Kröfur á lánastofnanir | 20.408 | 20.791 | -383 | -2% |
Útlán til viðskiptavina | 853.417 | 811.549 | 41.868 | 5% |
Aðrar eignir | 17.641 | 16.323 | 1.318 | 8% |
Eignir til sölu | 7.449 | 11.955 | -4.506 | -38% |
Samtals | 1.111.157 | 1.118.658 | -7.501 | -1% |
Skuldir og eigið fé | 31.12.2016 | 31.12.2015 | Breyting 2016 | |
---|---|---|---|---|
Innlán frá fjármálafyrirtækjum | 20.093 | 56.731 | -36.638 | -65% |
Innlán frá viðskiptavinum | 589.725 | 559.051 | 30.674 | 5% |
Lántaka | 223.944 | 209.344 | 14.600 | 7% |
Aðrar skuldir | 25.069 | 27.483 | -2.414 | -9% |
Skuldir tengdar eignum til sölu | 1.095 | 1.518 | -423 | -28% |
Eigið fé | 251.231 | 264.531 | 13.300 | -5% |
Samtals | 1.111.157 | 1.118.658 | -7.501 | -1% |
Allar upphæðir eru í milljónum króna
Lausafjárstaða bankans bæði í íslenskum krónum og erlendri mynt er áfram mjög sterk. Lausafjáreignir námu tæpum 161 milljörðum króna í lok árs 2016.
Meginmælikvarði lausafjáráhættu til skamms tíma er lausafjárþekja (e. liquidity coverage ratio (LCR)) sem mælir hlutfall hágæða lausafjáreigna af hreinu heildarútflæði á næstu 30 dögum miðað við álagsaðstæður.
Lausafjárþekja var 128% í lok árs 2016 en Seðlabankinn gerir kröfu um að hlutfallið sé að lágmarki 90%. Lausafjárþekja erlendra mynta var á sama tíma 743% en Seðlabankinn gerir kröfu um að það hlutfall sé að lágmarki 100%.
Lausafjáreignir | 31.12.2016 | 31.12.2015 | Breyting 2016 | |
---|---|---|---|---|
Lausafé hjá seðlabönkum | 18.819 | 25.024 | -6.205 | -25% |
Lán til fjármálastofnana (styttri en 7 dagar) | 16.732 | 16.342 | 390 | 2% |
Skuldabréf hæf til endurhverfra viðskipta | 125.159 | 167.463 | -42.304 | -25% |
Lausafjáreignir samtals | 160.710 | 208.829 |
-48.119 | -23% |
Allar upphæðir eru í milljónum króna
Útlán til viðskiptavina námu 853 milljörðum króna í lok árs 2016 samanborið við tæpa 812 milljarða króna í byrjun ársins og hækkuðu þau um 42 milljarða króna á árinu.
Á árinu 2016 námu ný útlán 267 milljörðum króna. Heildarútlán lækkuðu um 25 milljarða króna vegna gengisáhrifa, verðbóta og virðisaukningar. Afborganir viðskiptavina á árinu námu 197 milljörðum króna.
Heildareignir bankans lækkuðu um 7,5 milljarða króna á árinu.
Innlán viðskiptavina, að fjármálafyrirtækjum frátöldum, jukust um 5,5% á árinu 2016, eða um 30,7 milljarða króna. Innlán frá fjármálafyrirtækjum lækkuðu um 36,6 milljarða króna á árinu og er lækkunin fyrst og fremst vegna gjaldeyrisútboðs Seðlabanka Íslands í júní 2016.
„Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aldrei mælst hærri og staða bankans á fyrirtækjamarkaði og á fjármálamörkuðum er áfram sterk. Þá sýna mælingar að ánægja viðskiptavina bankans jókst umtalsvert á árinu sem er okkur afar mikilvægt, enda leggur bankinn mikla áherslu á að veita viðskiptavinum sínum um allt land fyrirmyndarþjónustu á samkeppnishæfum kjörum.“
Landsbankinn hefur verið með lánshæfismat frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu Standard & Poor’s frá ársbyrjun 2014. Í október 2016 var lánshæfiseinkunn bankans hækkuð um eitt þrep og er nú BBB/A-2 með jákvæðum horfum.
Í september 2016 gaf Landsbankinn út óveðtryggð skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra. Skuldabréfin eru á gjalddaga í mars 2021, bera fasta 1,625% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 190 punkta álagi ofan á millibankavexti í evrum.
Í nóvember 2016 gaf bankinn út óveðtryggð skuldabréf að fjárhæð 1 milljarður sænskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og bera annars vegar fasta 1,375% vexti og hinsvegar breytilega vexti með 1,5% vaxtaálagi ofan á millibankavexti í sænskum krónum. Skuldabréfin eru gefin út innan 1.500 milljóna evra ramma bankans um skuldabréfaútgáfu til meðallangs tíma (e. Euro Medium Term Note (EMTN) Programme) og eru skráð í írsku kauphöllina.
Rekstarhagnaður bankans eftir skatta á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna samanborið við 36,5 milljarða króna árið 2015. Á árinu 2016 nam virðisrýrnun útlána 318 milljónum króna en á árinu 2016 dæmdi Hæstiréttur bankanum í óhag í þremur málum er reyna á kröfu um leiðréttingu á fyrri endurútreikningi gengistryggðra lána í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012.
Hæstiréttur taldi að áhrif viðbótarkröfu væru það veruleg að bankinn yrði að bera þann vaxtamun sem deilt var um í málunum og leiddi af því að umrædd lán voru bundin ólögmætri gengistryggingu.
Þessir dómar kunna að hafa fordæmisgildi fyrir önnur gengistryggð lán til fyrirtækja, séu aðstæður sambærilegar, en frekari dóma sem skýra nánar fordæmisgildið er þörf. Því gæti matið á fjárhagslegum áhrifum dómanna breyst í samræmi við niðurstöður nýrra dóma. Þessir dómar höfðu í för með sér gjaldfærslu í rekstrarreikning samstæðunnar í lok fjórða ársfjórðungs 2016 að fjárhæð 5.435 milljónir.
Rekstrarreikningur | 2016 | 2015 | Breyting 2016 | |
---|---|---|---|---|
Hreinar vaxtatekjur | 34.650 | 32.324 | 2.326 | 7% |
Virðisbreyting | -318 | 18.216 | -18.534 | -102% |
Hreinar vaxtatekjur eftir virðisbreytingu | 34.332 | 50.540 | -16.208 | -32% |
Hreinar þjónustutekjur | 7.809 | 6.841 | 968 | 14% |
Gjaldeyrisgengismunur | -179 | -1.277 | 1.098 | -86% |
Aðrar rekstrartekjur | 6.255 | 16.259 | -10.004 | -62% |
Afkoma fyrir rekstrarkostnað | 48.217 | 72.363 | -24.146 | -33% |
Laun og launatengd gjöld | 14.049 | 13.754 | 295 | 2% |
Önnur rekstrargjöld | 7.586 | 8.061 | -475 | -6% |
Afskriftir rekstrarfjármuna | 611 | 663 | -52 | -8% |
Tryggingasjóður innstæðueigenda | 1.268 | 1.254 | 14 | 1% |
Rekstrarkostnaður | 23.514 | 23.732 | -218 | -1% |
Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga, að frádregnum skatti | 483 | 248 | 235 | 95% |
Hagnaður fyrir skatta | 25.186 | 48.879 | -23.693 | -48% |
Tekju- og bankaskattur | -8.543 | -12.419 | 3.876 | -31% |
Hagnaður ársins | 16.643 | 36.460 | -19.817 | -54% |
Allar upphæðir eru í milljónum króna
Hreinar vaxtatekjur námu 34,7 milljörðum króna á árinu 2016 samanborið við 32,3 milljarða króna árið 2015. Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna og heildarskulda var 2,3% á árinu 2016 og hækkar um 0,1% á milli ára.
Virðisbreytingar útlána hafa á undanförnum árum valdið miklum sveiflum á rekstrarafkomu bankans. Á árinu 2016 voru 5,4 milljarðar færðir til gjalda í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar. Virðisbreytingar útlána námu 318 milljónum króna samanborið við virðisaukningu upp á 18 milljarða króna árið 2015. Hreinar þjónustutekjur námu 7,8 milljörðum króna á árinu 2016, sem er hækkun um 1 milljarð á milli ára. Sú hækkun skýrist að langstærstum hluta af breytingum á kortamarkaði og auknum umsvifum í markaðsviðskiptum.
Aðrar rekstrartekjur námu 6 milljörðum króna á árinu 2016 samanborið við 14,9 milljarða króna árið 2015, sem er lækkun um 59% á milli ára. Lækkunina má rekja til þróunar á mörkuðum á árinu.
Rekstrarkostnaður ársins 2016 var 23,5 milljarðar króna, en það er lækkun frá árinu 2015, þegar rekstrarkostnaðurinn var 23,7 milljarðar króna. Launakostnaður hækkaði um tæpar 295 milljónir króna á milli ára og annar rekstrarkostnaður lækkaði um 513 milljónir. Kostnaðarhlutfallið fyrir árið reiknast 48,4%. Kostnaðarhlutfallið sýnir hlutfall rekstrargjalda bankans á móti hreinum rekstrartekjum, að undanskildum virðisbreytingum útlána. Stöðugildum í samstæðu bankans fækkaði um 51 á árinu 2016, úr 1.063 í 1.012.