Einstaklingar


Meginhlutverk Einstaklingssviðs er að annast viðskipti við einstaklinga en að auki veita útibú á landsbyggðinni fyrirtækjum alla almenna bankaþjónustu.

Fara neðar
Árið 2016 var markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði 37,1%, samkvæmt rannsókn Gallup, og hefur aldrei mælst hærri. Á árinu 2008 var markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði um 28% og nemur aukningin á tímabilinu því um níu prósentustigum.
Markaðshlutdeild - Einstaklingsmarkaður

Heimild: Gallup

Mikil umsvif á íbúðalánamarkaði

Umsvif Landsbankans á íbúðalánamarkaði voru áfram mikil á árinu 2016. Alls lánaði bankinn 64,5 milljarða króna sem ný íbúðalán á árinu 2016. Um 83% þeirrar fjárhæðar voru verðtryggð íbúðalán og 17% óverðtryggð. Árið 2016 var markaðshlutdeild Landsbankans í nýjum íbúðalánum 28%, samkvæmt rannsókn Gallup, sem er svipað hlutfall og árið 2014 en töluvert lægra en árið 2015. Lægri hlutdeild Landsbankans á íbúðalánamarkaði árið 2016 skýrist einkum af því að í árslok 2015 hófu lífeyrissjóðir að bjóða sjóðfélögum sínum betri kjör og hækkuðu um leið lánshlutfall.

Þrátt fyrir harða samkeppni á árinu 2016 voru umsvif Landsbankans á íbúðalánamarkaði engu að síður mikil.

Landsbankinn lánar fyrir allt að 85% af kaupverði íbúðarhúsnæðis. Lánað er fyrir allt að 70% kaupverðs til allt að 40 ára og hægt er að fá 15% viðbótarlán til allt að 15 ára. Viðbótarlánið nýtist einkum þeim sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign, ekki síst ungu fólki. Sem fyrr leggur bankinn mikla áherslu á vandaða ráðgjöf og skjót og fagleg vinnubrögð við lánveitingar.

Markaðshlutdeild í nýjum íbúðalánum 2016

28%
Ný íbúðalán (ma. kr.)
 

Lántökugjald af íbúðalánum er nú föst upphæð, óháð lánsfjárhæð

Landsbankinn tilkynnti 6. október 2016 að lántökugjald vegna íbúðalána til einstaklinga yrði föst upphæð í stað þess að vera hlutfall af lánsfjárhæð. Lántökugjald er nú 52.500 krónur við hverja lántöku.

Í langflestum tilfellum leiðir þessi breyting til þess að lántakendur greiða mun lægra lántökugjald en áður. Lántökugjald og kostnaður vegna 20 m. kr. íbúðaláns til einstaklings var áður 155.000 kr., svo dæmi sé tekið. Lántökugjald er sem fyrr fellt niður hjá þeim sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign.

Alls skráði bankinn um 5.400 ný íbúðalán til um 3.250 einstaklinga í bækur sínar á árinu 2016 og er þá bæði átt við ný íbúðalán og lán vegna endurfjármögnunar.

Lántökugjald m.v. 20 m. kr. íbúðalán
Hús
Umsvif Landsbankans á bílalánamarkaði voru áfram mikil á árinu 2016. Alls lánaði bankinn 7,4 milljarða króna sem ný bílalán á árinu 2016, sem er 12% hærri fjárhæð en árið 2015.
Skipting útlána til einstaklinga 2016

Umsvifamestur í bíla- og tækjafjármögnun

Markaðshlutdeild á bílalánamarkaði hækkaði á milli ára og annað árið í röð var Landsbankinn með hæstu hlutdeildina á þeim markaði, eða 34%, samkvæmt könnun Gallup. Þá er sérstaklega ánægjulegt að samkvæmt fyrrnefndri Gallup-könnun nýtur Landsbankinn mests trausts allra lánveitenda á bílalánamarkaði. Ennfremur sögðu flestir að þeir myndu velja Landsbankann ef þeir ætluðu að taka bílalán í dag.

Markaðshlutdeild Bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans mældist 37,4% meðal þeirra fyrirtækja sem bjóða sérhæfða bíla- og tækjafjármögnun, samkvæmt könnun Gallup.

Aukakrónur í stöðugri sókn

Fríðindakerfi Landsbankans, Aukakrónur, er í sífelldri sókn. Á árinu 2016 jókst fjöldi þeirra viðskiptavina sem safna Aukakrónum með því að gera kreditkort sín að A-kortum um 13,6%. Yfir 50.000 manns eru nú skráðir í Aukakrónukerfið. Þegar korthafi notar A-kort fær hann greiddar Aukakrónur frá Landsbankanum, annars vegar sem hlutfall af innlendri veltu og hins vegar frá samstarfsaðilum Aukakróna sem endurgreiðsluafslátt.

Samkvæmt könnun Gallup í september 2016 eru þeir sem eru með Aukakrónur Landsbankans ánægðari en notendur annarra vildarkerfa.

Árið 2016 bættust 24 samstarfsaðilar í Aukakrónuhópinn og nú er hægt að safna og leysa út Aukakrónur hjá rúmlega 200 samstarfsaðilum um allt land. Á árinu 2016 voru samtals 234 milljónir greiddar út til Aukakrónukorthafa.


Aukakrónunotkun

Nýtt debetkort – snertilaust, á netinu og um allan heim

Um mitt ár 2016 hóf Landsbankinn að gefa út ný debetkort af gerðinni Visa debet sem leysa eldri kort af gerðinni Visa Electron af hólmi. Nýju debetkortin eru með snertilausa virkni sem þýðir að með þeim er hægt að greiða lægri fjárhæðir en 5.000 krónur án þess að stinga korti í posa og slá inn PIN-númer. Einungis þarf að bera kortið upp að posanum. Ef keypt er fyrir meira en 5.000 kr. þarf að slá inn PIN-númer. Af og til er korthafi beðinn um að slá inn PIN-númer þótt greitt sé með snertilausum hætti og er það gert til að auka öryggi.

Á nýju kortunum er einnig birt 16 stafa kortanúmer og 3 stafa öryggisnúmer. Hægt er að nota þessi númer til að greiða fyrir verslun og þjónustu á netinu. Nýju debetkortin eru alþjóðleg og eru framleidd samkvæmt nýjustu öryggisstöðlum. Tekið er við þeim á mun fleiri stöðum erlendis en eldri debetkortum.

Allir viðskiptavinir Landsbankans sem eru með debetkort frá bankanum verða komnir með ný kort í hendurnar fyrir febrúarlok 2017.

Nýtt debetkort Landsbankans

Viðskiptavinir ánægðir með 360° ráðgjöf

Á árinu 2015 hóf Landsbankinn að bjóða viðskiptavinum upp á 360° ráðgjöf, heildstæða fjármálaráðgjöf sem tekur á öllum þáttum fjármála einstaklinga; sparnaði, lánum, tryggingum og fleiru.

Viðskiptavinir hafa frá upphafi tekið ráðgjöfinni mjög vel. Á árinu 2016 fengu 8.318 viðskiptavinir 360° fjármálaráðgjöf. Í kjölfar viðtals við ráðgjafa send Landsbankinn viðskiptavinum netkönnun og spurði hvernig þeim líkaði ráðgjöfin. Könnunin sýnir að þeir viðskiptavinir sem hafa fengið 360° ráðgjöf eru mjög ánægðir með ráðgjöfina og samkvæmt mælingu Gallup frá í september 2016 voru viðskiptavinir Landsbankans sem höfðu fengið 360° ráðgjöf ánægðustu viðskiptavinir bankakerfisins.

Í apríl 2016 hóf Landsbankinn samstarf við Sjóvá hf. um tryggingaráðgjöf fyrir viðskiptavini bankans en umfjöllun um tryggingar er einn liður í 360° ráðgjöfinni. Óski viðskiptavinir eftir tryggingaráðgjöf sendir starfsfólk Landsbankans ábendingar til tryggingasérfræðinga Sjóvár sem hafa samband við viðkomandi um hæl.

Ánægja með þjónustu útibúa

Viðskiptavinir Landsbankans eru mjög ánægðir með þjónustu útibúa. Í Gallup-könnun í nóvember 2016 sögðust 95% viðskiptavina vera ánægðir með þjónustuna og þar af sögðust 87% vera mjög eða fullkomlega ánægðir.

Viðskiptavinir sem fengu 360° ráðgjöf

8.318

Ánægðir viðskiptavinir

95%