Fyrirtæki


Meginhlutverk Fyrirtækjasviðs snýr að þjónustu við fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir. Fyrirtækjamiðstöð Landsbankans heyrir einnig undir sviðið.

Fara neðar
Byggingar og byggingarkranar
Árið 2016 var gott fyrir atvinnulífið í landinu. Góður gangur var í hagkerfinu og kröftugur hagvöxtur. Í Landsbankanum er markvisst unnið eftir þeirri stefnu að bankinn sé traustur samherji viðskiptavina sinna og veiti þeim framúrskarandi þjónustu.

Traustur samherji fyrirtækja

Landsbankinn hefur mjög sterka stöðu á fyrirtækjamarkaði og mældist hlutdeild bankans á þeim markaði 33,4% í árslok 2016 en var 31,5% í árslok 2015, samkvæmt markaðsrannsókn Gallup.

Þegar hlutdeild útlána stóru bankanna þriggja er skoðuð út frá útlánum til fyrirtækja er hlutdeild Landsbankans sem fyrr mest, eða um 40,7%.

Útlánavöxtur var hóflegur á árinu. Þegar horft er á lánasafn Landsbankans til fyrirtækja má sjá aukningu í útlánum til uppbyggingar í ferðaþjónustu og á íbúðarhúsnæði. Einnig varð umtalsverður vöxtur í útlánum til verslunar og þjónustu. Staða sjávarútvegsins er mjög sterk og almennt hafa skuldir sjávarútvegsfyrirtækja lækkað.

Öflugur samherji atvinnulífsins

Landsbankinn kappkostar að bjóða fyrirtækjum alhliða fjármálaþjónustu og hafa þau aðgang að sérfræðiþjónustu í víðfeðmasta útibúaneti landsins. Landsbankinn er þannig öflugur samherji fyrirtækja um allt land. Fyrirtækjamiðstöð Landsbankans í Borgartúni 33, sem sérhæfir sig í þjónustu við minni og meðalstór fyrirtæki, hefur sannað gildi sitt og samkvæmt mælingum Gallup eru viðskiptavinir mjög ánægðir með fyrirkomulag þessarar þjónustu við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.

Gallup kannar reglulega hvernig viðskiptavinum líkar þjónusta Fyrirtækjamiðstöðvarinnar. Könnun sem gerð var í desember 2016 leiddi í ljós að 94% viðskiptavina Fyrirtækjamiðstöðvarinnar voru ánægðir með þjónustuna og 76% voru mjög eða fullkomlega ánægðir.

Kannanir Gallup sýna að Landsbankinn hefur mesta markaðshlutdeild af bönkunum þremur á landsbyggðinni og er forskot bankans á þeim markaði töluvert. Landsbankinn kappkostar að mæta ólíkum þörfum fjölbreytts og kröftugs atvinnulífs um allt land.

Markaðshlutdeild í útlánum til fyrirtækja*

40,7%
* Samkvæmt ársuppgjöri bankanna fyrir árið 2016.

Ánægðir viðskiptavinir

94%
Færiband í fiskvinnslu
Landsbankinn leggur mikla áherslu á þjónustu við verslunar- og þjónustufyrirtæki. Viðskipti bankans við fyrirtæki í verslun og þjónustu jukust töluvert á árinu 2016 og bættust fjölmörg félög, stór og smá, í viðskiptavinahóp bankans. Útlán bankans til þessara atvinnugreina jukust umtalsvert árinu og renna styrkari stoðum undir stórt og vel dreift lánasafn bankans til fyrirtækja.

Stór byggingaverkefni sem bankinn kom að

56verkefni

Íbúðir fjármagnaðar af Landsbankanum*

1.839íbúðir
* sem koma á markað 2017 og 2018

Leiðandi í mannvirkjafjármögnun

Landsbankinn hefur um árabil verið leiðandi í mannvirkjafjármögnun og hefur þannig á liðnum árum verið stærstur í fjármögnun nýrra íbúða og nýrra hótelbygginga.

Stærri verkefni á þessu sviði sem bankinn fjármagnaði voru 56 talsins um síðustu áramót, á vegum 47 verktakafyrirtækja. Fjögur verkefni fólust í byggingu hótela og þrjú verkefni snerust um byggingu atvinnuhúsnæðis. Bygging nýs íbúðarhúsnæðis var lang fyrirferðarmest en alls fjármagnaði bankinn 49 slík verkefni, miðað við stöðuna í lok desember 2016.

Alls eru 1.839 íbúðir í framangreindum verkefnum og koma þær allar á markað á árunum 2017 og 2018. Stærsti hluti íbúðanna er á höfuðborgarsvæðinu. Einnig lánaði bankinn til stórra verkefna á Selfossi, Akranesi og í Reykjanesbæ. Lætur nærri að þær íbúðir sem bankinn fjármagnar séu um helmingur þess íbúðarhúsnæðis sem kemur á markaðinn á þessum svæðum til ársloka 2018.

Tvö hótelanna sem bankinn fjármagnar eru í Reykjavík og tvö eru utan höfuðborgarsvæðisins. Samfelld fjölgun erlendra ferðamanna hefur leitt til þess að skortur er á gistirými, sér í lagi yfir sumarmánuðina. Landsbankinn hefur því verið áhugasamur um að sinna uppbyggingarverkefnum á því sviði. Það er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að ferðaþjónusta er orðin stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin í landinu.

Trukkur við höfn

Landsbankinn hefur fullan hug á að halda leiðandi stöðu sinni í mannvirkjafjármögnun, bæði vegna byggingu nýs íbúðarhúsnæðis og við áframhaldandi uppbyggingu í ferðaþjónustu. Bankinn sér fram á að takast á við ný og spennandi verkefni á þessum sviðum á næstu misserum.

Öflugur bakhjarl sjávarútvegsfyrirtækja

Saga Landsbankans er samofin sögu sjávarútvegsins hér á landi. Greininni hefur mjög vaxið fiskur um hrygg og um leið hefur þar orðið mikil endurnýjun og nýsköpun. Landsbankinn hefur tekið virkan þátt í þessari uppbyggingu, m.a. í verkefnum sem snúa að endurnýjun á skipum og búnaði, verkefnum í laxeldi auk verkefna erlendis.

Samstarfs- og styrktarverkefni

Landsbankinn styður við og tekur þátt í fjölda samstarfs- og styrktarverkefnum með fyrirtækjum og stofnunum. Sérfræðingar bankans taka þátt í klasasamstarfi í ólíkum geirum, svo sem Íslenska ferðaklasanum, Jarðhitaklasanum og Sjávarklasanum.

Netöryggi

Landsbankinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í vörnum gegn netglæpum. Netglæpir verða sífellt flóknari og þróaðri. Ein mikilvægasta leiðin til að draga úr árásum er að miðla upplýsingum um þróun þessarar brotastarfsemi og hvernig fyrirtæki og einstaklingar geta varist henni.

Fyrirtæki sem veita þjónustu á netinu, lögregluyfirvöld og rannsóknaraðilar verða að vinna náið saman til að reyna að koma í veg fyrir tjón af þessum völdum. Á sama hátt er það hlutverk fyrirtækjanna, banka þar á meðal, að veita sínum viðskiptavinum fræðslu og ráðleggingar. Það hefur Landsbankinn gert, m.a. með því að halda kynningarfundi fyrir fyrirtæki og með því að birta pistla og upplýsingar um netöryggismál á vef sínum.