Markaðir


Meginhlutverk Markaða er að annast þjónustu er snýr að sölu og miðlun verðbréfa, viðskiptavakt, fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu.

Fara neðar
Markaðir Landsbankans náðu góðum árangri á árinu 2016. Helstu ástæður velgengninnar er aukið umfang viðskipta á nánast öllum sviðum. Mikil aukning var í gjaldeyrisviðskiptum og viðskiptum á markaði. Þá héldu umsvif Eignastýringar Landsbankans áfram að aukast á árinu. Heildareignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans námu 406 milljörðum króna í árslok 2016 en voru 340 milljarðar króna í lok árs 2015.
Vestmannaeyjar um vetur

Markaðshlutdeild í lífeyrissparnaði úr 17% í 19%

Landsbankinn býður bæði upp á lögbundinn lífeyrissparnað og viðbótarlífeyrissparnað. Þeim fjölgar sífellt sem velja að semja við Landsbankann um lífeyrissparnað en á síðustu fjórum árum hafa rúmlega 18 þúsund einstaklingar samið við bankann um viðbótarlífeyrissparnað. Samningum um lögbundinn lífeyrissparnað hefur einnig fjölgað mikið og hefur fjöldi slíkra samninga áttfaldast á síðustu þremur árum. Á árinu 2016 gerðu um 1.500 einstaklingar samning um lögbundinn lífeyrissparnað. Markaðskannarnir sýna að Landsbankinn jók markaðshlutdeild sína í ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar úr 17% í 19% á árinu 2016.

Landsbankinn rekur Íslenska lífeyrissjóðinn sem hefur náð góðum árangri á undanförnum árum.

Árið 2016 var ávöxtun Íslenska lífeyrissjóðsins góð miðað við markaðsaðstæður. Ávöxtun séreignarleiða var góð en meðalvegin nafnávöxtun séreignardeilda sjóðsins var 3,0%, eða 0,9% raunávöxtun.

Landsbankinn býður einnig upp á Lífeyrisbók Landsbankans, sem eru verðtryggðir og óverðtryggðir innlánsreikningar, auk Fjárvörslureiknings Landsbankans sem er safn erlendra verðbréfa. Þá sér Landsbankinn um rekstur Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands.

Alls nam lífeyrissparnaður sem Landsbankinn hefur umsjón með um 114 milljörðum króna í árslok 2016. Iðgjöld í lífeyrissparnað hjá Landsbankanum hafa farið ört vaxandi á síðustu árum og námu um 11 milljörðum árið 2016.

Landsbankinn leggur mikla áherslu á vandaða ráðgjöf og góða þjónustu á öllum sviðum. Til að fylgja þeirri stefnu eftir sjá starfsmenn bankans alfarið um ráðgjöf og sölu á sviði lífeyrismála.


Landsbankinn er helsti söluaðili verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Landsbréfa. Veruleg aukning varð í sölu sjóðanna á árinu. Markaðshlutdeild sjóðanna jókst úr tæpum 18% í byrjun árs í rúm 25% í lok árs 2016.

Lífeyrissparnaður í stýringu

114milljarðar króna

Eignir í stýringu

406milljarðar króna

Hlutdeild í Kauphöll

21%af heildarveltu

Landsbankinn hefur lagt áherslu á að halda góðum tengslum við erlend sjóðastýringarfyrirtæki, enda er bankinn með umboð fyrir mörg af helstu eignastýringar-fyrirtækjum heims.

Leiðandi í markaðsviðskiptum

Landsbankinn var með mestu hlutdeild á hlutabréfamarkaði í Kauphöll og næstmestu hlutdeild á skuldabréfamarkaði á árinu 2016. Keppinautar bankans á þessum markaði eru átta og samkeppnin er hörð. Landsbankinn er leiðandi á þessu sviði, með veltu upp á um 21% af heildarveltu í Kauphöllinni.


Öflug þjónusta og mikil reynsla af erlendum verðbréfaviðskiptum

Mikil áhersla hefur verið lögð á að undirbúa afnám fjármagnshafta. Landsbankinn hefur frá því að fjármagnshöftin voru sett á árið 2008 haldið áfram að sinna þjónustu sem snýr að erlendum verðbréfaviðskiptum, þrátt fyrir að fáir viðskiptavinir hafi getað nýtt sér hana. Bankinn hefur lagt áherslu á að halda góðum tengslum við erlend sjóðastýringarfyrirtæki, enda er Landsbankinn með umboð fyrir mörg af helstu eignastýringarfyrirtækjum heims.

Landsbankinn hefur sömuleiðis viðhaldið góðum tengslum vegna verðbréfamiðlunar erlendis og hefur þannig getað veitt viðskiptavinum aðstoð við erlend verðbréfaviðskipti. Starfsmenn bankans hafa haldið áfram að byggja upp þekkingu sína á erlendum mörkuðum en hjá bankanum starfa sérhæfðir starfsmenn sem eingöngu sinna ráðgjöf og þjónustu vegna verðbréfaviðskipta utan landsteinanna. Landsbréf, dótturfélag Landsbankans, hefur einnig rekið sjóði sem fjárfesta erlendis. Á árinu 2016 var þjónusta Landsbankans á þessu sviði efld enn frekar og gerð aðgengilegri fyrir viðskiptavini. Liður í því var stofnun nýs sjóðs, Landsbréf Global Portfolio. Sjóðurinn er ætlaður einstaklingum, fyrirtækjum og fagfjárfestum sem vilja fjárfesta í dreifðu og blönduðu safni erlendra hlutdeildarskírteina og innlána. Sjóðurinn leggur áherslu á fjárfestingar í erlendum hlutabréfasjóðum.

Shanghai um kvöld

Lesið í markaðinn – ítarlegt rit um eignastýringu og fjárfestingu

Á árinu 2016 stóð bankinn fyrir útgáfu á bókinni Lesið í markaðinn: Eignastýring og leitin að bestu ávöxtun. Bókin fjallar um sögu fjárfestinga á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum og er í henni sérstakur kafli um íslenska verðbréfamarkaðinn. Bókin er eitt ítarlegasta rit sem komið hefur út á íslensku um eignastýringu og fjárfestingu. Með útgáfunni vill bankinn stuðla að aukinni fagþekkingu og betri fjárfestingarákvörðunum.

Ítarlega var fjallað um starfsemi Markaða í nóvemberhefti fagtímaritsins Investor Review. Tímaritið veitti Landsbankanum viðurkenningu fyrir þá öflugu þjónustu sem bankinn veitir við fjárfestingar í hlutabréfum, bæði í gegnum miðlun og eignastýringu.

Gengisþróun leiðrétt fyrir arði

Þegar tekið hefur verið tillit til arðgreiðslna hækkuðu hlutabréf N1 mest, eða um 86,8%. Mesta lækkunin varð á hlutabréfum Icelandair, eða 32,8%.

Minni ávöxtun á innlendum hlutabréfamarkaði

Árið 2016 var heldur þyngra á innlendum hlutabréfamarkaði en undanfarin ár. Úrvalsvísitala hlutabréfa, að teknu tilliti til arðgreiðslna (OMXI8GI), lækkaði um 6,7% en hún hafði hækkað um 49% á árinu 2015. Þegar tekið hefur verið tillit til arðgreiðslna hækkuðu hlutabréf N1 mest, eða um 86,8%. Mesta lækkunin varð á hlutabréfum Icelandair, eða 32,8%. Hlutabréf Skeljungs voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni og var það eina skráningin á hlutabréfamarkað á árinu.

Afkoma félaga í Kauphöllinni var yfirleitt góð á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins. Segja má að íslenska hlutabréfamarkaðinum sé skipt í tvennt; annars vegar félög sem eru nær eingöngu háð hagsveiflunni hér innanlands, s.s. fasteignafélög, fjarskiptafélög og félög í smásölu og hins vegar félög sem afla mikils hluta tekna sinna erlendis, s.s. Icelandair, Marel og Össur. Krónan styrktist nokkuð gagnvart helstu viðskiptamyntum á árinu en gengisvísitalan lækkaði um 15,5%. Styrkingin hafði töluverð áhrif á þau félög sem gera upp í erlendri mynt en eru með mikil útgjöld í krónum.

Árið var nokkuð viðburðaríkt úti í hinum stóra heimi. Forsetakosningar í Bandaríkjunum, óvissa um kínverska hagkerfið, hryðjuverk og útganga Breta úr Evrópusambandinu voru allt stóratburðir sem hafa áhrif á þau félög sem selja vörur og þjónustu til viðkomandi markaða.

Innlendur hlutabréfamarkaður - OMXI8 með arði

Styrking gengis hafði áhrif á ávöxtun erlendra verðbréfa

Heimsvísitala erlendra hlutabréfa (MSCI World) lækkaði um 6,4% á árinu í íslenskum krónum og var það gengisstyrking íslensku krónunnar sem hafði mest áhrif á ávöxtunina.

Ávöxtun erlendra hlutabréfa í eigin mynt var ágæt. Ávöxtun heimsvísitölunnar í Bandaríkjadölum var 7,3% og þessi jákvæða þróun var drifin áfram af góðri ávöxtun bandarískra hlutabréfa, en S&P 500 vísitalan hækkaði um 10,9% á árinu. Evrópsk hlutabréf hækkuðu eingöngu um 1,0% og japönsk hlutabréf um 2,4% á sama tímabili.

Þróun á erlendum mörkuðum tók mikið mið af fréttum. Árið 2016 hófst með slökum hagvaxtartölum frá Kína og væntingum um að hagvöxtur þar væri á undanhaldi. Höfðu markaðsaðilar áhyggjur af að það myndi hafa áhrif á hagvaxtarhorfur á heimsvísu.

Olíuverð hækkaði í upphafi árs og flökti töluvert út árið eftir miklar lækkanir undanfarin tvö ár. Helsti áhrifavaldur á þróun olíuverðs voru tilraunir OPEC til þess að hafa áhrif á framleiðslu og framboð olíu í heiminum. Í kjölfar hækkunar á olíuverði hækkuðu hlutabréf í nýmarkaðsríkjum, sem eru háð hrávöruframleiðslu. Vísitala hlutabréfa nýmarkaðsríkja hækkaði um 11,6% á árinu.

Þróun á erlendum mörkuðum tók mikið mið af fréttum. Árið 2016 hófst með slökum hagvaxtartölum frá Kína og væntingum um að hagvöxtur þar væri á undanhaldi.
Mestu og óvæntustu tíðindin á erlendum mörkuðum voru tvímælalaust ákvörðun Breta um að ganga úr Evrópusambandinu og sigur Donald Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Báðir atburðirnir leiddu til mikils flökts á hlutabréfamörkuðum.

Lægri vextir og lægri verðbólga áhrifavaldar á innlendum skuldabréfamarkaði

Stærstu áhrifavaldar innlends skuldabréfamarkaðar voru 0,75 prósentustiga lækkun stýrivaxta Seðlabankans, sú staðreynd að verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði í rúm tvö ár og lækkandi verðbólguálag á markaði.

Verðbólguálag á markaði fór í lok árs í fyrsta skipti undir verðbólgumarkmið Seðlabanka. Það gerðist með töluverðri kröfulækkun á óverðtryggðum skuldabréfum í kjölfar óvæntrar 0,5 prósentustiga lækkunar stýrivaxta í lok ágúst. Í desember fylgdi svo önnur 0,25 prósentustiga stýrivaxtalækkun. Stýrivaxtalækkun má rekja til mjög lágrar verðbólgu sem er tilkomin vegna mikillar styrkingar íslensku krónunnar. Styrkingin á rætur að rekja til mikils innflæðis gjaldeyris vegna ferðamanna og aukinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi.

Besta ávöxtunin var í löngum, óverðtryggðum ríkisskuldabréfum og skilaði RIKB 31 13,7% ávöxtun og RIKB 25 11,9% ávöxtun á árinu.

Slakasta ávöxtunin var í stuttum verðtryggðum ríkisskuldabréfum, en RIKS 21 skilaði 3,6% ávöxtun á árinu.

Útgáfa skuldabréfa á árinu var í kringum 180 milljarðar. Þar af gaf ríkið út 60 milljarða og fjármálastofnanir 90 milljarða í gegnum sértryggð skuldabréf og víxla.

Skuldabréfamarkaður

Gjaldeyrismarkaður

Árið á gjaldeyrismarkaði einkenndist af miklu innflæði gjaldeyris. Krónan styrktist gagnvart gjaldmiðlum allra helstu viðskiptalanda Íslands yfir árið; evran lækkaði um 16%, Bandaríkjadollar um 13% og sterlingspund um 28%. Gengisvísitalan lækkaði um 15,5%. Raungengi krónu miðað við hlutfallslegt verðlag í desember var 20% hærra en í desember 2015. Velta á gjaldeyrismarkaði árið 2016 var alls 701 ma.kr. Hún jókst töluvert milli ára, en til samanburðar var veltan 492 ma.kr. á árinu 2015.

Seðlabankinn keypti mikið af gjaldeyri á árinu, eða alls fyrir andvirði 386 ma.kr., en það samsvarar 55% af veltu á gjaldeyrismarkaði. Samfara þessum kaupum hefur gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans stækkað og var í lok nóvember 806 ma.kr. Að frádregnum öllum skuldum ríkissjóðs og Seðlabankans í erlendum gjaldeyri var óskuldsettur gjaldeyrisforði 559 ma.kr.