Þróun í bankastarfsemi


Viðskiptavinir Landsbankans geta sinnt flestum algengum bankaviðskiptum á netinu eða í hraðbönkum og þurfa því ekki að heimsækja útibú nema það henti betur. Hlutverk banka er að breytast en þörfin fyrir fjármálaráðgjöf er óbreytt og jafnvel brýnni en áður.

Fara neðar
Þróun og breytingar á starfsemi útibúa bankans snúast einkum um að bæta aðgengi að sjálfsafgreiðslu og styðja og kenna viðskiptavinum að nýta sér sjálfsafgreiðslulausnir. Þannig fjölgar valkostum sem viðskiptavinum standa til boða og þeir geta átt betri bankaviðskipti.
Netbanki einstaklinga í fartölvu

Betri bankaviðskipti í útibúum

Á árinu 2016 voru gerðar breytingar á útibúum bankans í Hafnarfirði, Hamraborg og Mjódd. Það sem helst einkennir breytingar í útibúunum er að hraðbönkum, nettengdum tölvum og öðrum sjálfsafgreiðslulausnum er fjölgað verulega. Áður hafði starfsfólk verið þjálfað í að taka á móti viðskiptavinum og bjóða þeim aðstoð eða kennslu við að nýta sér lausnirnar. Kostirnir eru ótvíræðir - viðskiptavinurinn sparar sér tíma og fyrirhöfn, álag í útibúunum minnkar og styttri bið er eftir þjónustu.

Reynslan af þessu verkefni hefur verið góð. Um það bil helmingur viðskiptavina sem áður sótti í útibú vegna einfaldari afgreiðslu, annast hana nú sjálfur í sjálfsafgreiðslu eða hefur virkjað möguleika til sjálfvirkni, t.d. með sjálfvirkri skuldfærslu.

Hlutverk útibúa hefur verið að breytast, frá því að sinna að stærstum hluta afgreiðslu á erindum sem viðskiptavinir geta nú sjálfir leyst í netbanka eða hraðbanka, yfir í að verða miðstöðvar fyrir fjármálaráðgjöf. Á árinu 2016 fengu um 8.000 viðskiptavinir Landsbankans svonefnda 360° fjármálaráðgjöf, sem er heildstæð ráðgjöf sem tekur á öllum hliðum fjármála.

Nánar er fjallað um 360° ráðgjöf í kaflanum um starfsemi Einstaklingssviðs.

Viðskiptavinir sem áður sóttu útibú en nýta nú sjálfsafgreiðslu og sjálfvirkni

53%viðskiptavina
Þjónustufulltrúar í Vesturbæjarútibúi

Yfirdráttarheimild í netbanka

Stöðug framþróun í netbanka einstaklinga og fyrirtækja

Netbankar Landsbankans eru í stöðugri framþróun. Útlit, viðmót og öryggiskerfi netbanka fyrirtækja tók miklum breytingum á árinu 2016 og ýmsar gagnlegar viðbætur voru kynntar í netbanka einstaklinga og farsímabankanum L.is.

Útlit netbankanna hefur verið samræmt sem styrkir heildaryfirbragð viðmóts og dreifileiða en auðveldar einnig þróun og forritun þar sem notast er við sameiginlegar einingar í öllum netbönkunum.

Yfirdráttarheimild í netbanka einstaklinga og farsímabanka

Nú geta viðskiptavinir sjálfir sótt um og breytt yfirdráttarheimild á reikningum sínum í netbanka einstaklinga og farsímabankanum. Ferlið byggir á sjálfvirkum lánaramma sem tekur mið af stöðu og viðskiptasögu hvers og eins og segir til um hversu háa yfirdráttarheimild, til viðbótar við núverandi skuldbindingar, viðskiptavinurinn getur fengið, án þess að gert sé lána- eða greiðslumat. Þessi nýjung bætir mjög þjónustu við viðskiptavini bankans, enda er mikill kostur að geta stillt yfirdráttarheimildina milliliðalaust þegar viðskiptavinum hentar. Búast má við frekari þróun í þessa átt, þ.e. að sífellt fleiri vörur og þjónustuþættir verði aðgengilegir í netbanka eða í gegnum aðrar sjálfsafgreiðslulausnir.

Breytingar á viðmóti í netbanka fyrirtækja

Á árinu 2016 voru miklar endurbætur gerðar á útliti netbanka fyrirtækja með það fyrir augum að auðvelda notkun hans, bæta læsileika og gera hann spjaldtölvuvænan. Allar aðgerðir og yfirlit eru enn til staðar en útlitið hefur verið fært í nýjan búning með breyttu letri, töflum, hnöppum og innsláttarreitum. Breytingarnar voru liður í að samræma útlit og virkni netbankanna.

Notkun fyrirtækja á sjálfsafgreiðslulausnum aldrei meiri

Starfsmenn fyrirtækja leysa í vaxandi mæli úr erindum sínum án aðkomu starfsmanna bankans. Á árinu 2016 sáu fyrirtæki sjálf um framkvæmd 94,5% allra greiðslna.

Notendum netbanka fyrirtækja fjölgaði um rúm 12% árið 2016. Á sama tíma fjölgaði innskráningum í netbanka fyrirtækja um tæp 15% og síðuflettingar jukust um tæp 12%. Sífellt fleiri viðskiptavinir kjósa að nota app til auðkenningar í stað plastlykils áður. Í árslok var appið notað við 41% innskráninga en plastlykillinn við 59% innskráninga.

Landsbankinn vinnur stöðugt að því að bæta tæknilausnir sínar. Á árinu 2016 var mikil áhersla lögð á endurnýjun netbanka fyrirtækja. Á árinu voru kynnt til sögunnar ný kreditkortayfirlit og verðbréfayfirlit, auk þess sem ný og sveigjanlegri aðgangsstýring leit dagsins ljós.

Ýmsar fleiri lagfæringar hafa verið gerðar á netbanka fyrirtækja og nýir valmöguleikar kynntir til sögunnar. Í þeirri umbótavinnu hefur megináhersla verið lögð á að auka framboð á upplýsingum og bæta framsetningu þeirra.

Notkun á netbanka fyrirtækja

12%aukning milli ára
Heimsóknir í netbanka einstaklinga
Heimsóknir í farsímabanka

Farsímabanki Landsbankans var valinn besta vefappið árið 2016 af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna en verðlaunin voru afhent 27. janúar 2017.

Mest aukning í innskráningu í farsímabanka

Notkun allra netbankanna eykst ár frá ári. Mest aukningin er í farsímabankanum, l.is, en mánaðarlegum innskráningum í hann fjölgaði um 47% frá janúar 2016 til desember 2016 og árlegum innskráningum fjölgaði um 73% árið 2016 miðað við árið á undan. Notkun á farsímabankanum hefur aukist mun hraðar en notkun netbanka einstaklinga.

Farsímabanki Landsbankans var valinn besta vefappið árið 2016 af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna en verðlaunin voru afhent 27. janúar 2017.

Mikil áhersla á öryggismál

Landsbankinn leggur mikla áherslu á öryggismál. Bankinn tekur þátt í margvíslegu samstarfi á sviði öryggismála, m.a. í öryggishópi norrænna banka. Landsbankinn notar öryggiskerfi frá RSA sem er eitt stærsta fyrirtæki heims á sviði netöryggislausna. Kerfi RSA eru mjög öflug en samstarfið og sérþekkingin sem bankinn fær aðgang að er ekki síður verðmæt.

Í september hlaut Landsbankinn hina eftirsóttu viðurkenningu „Best in Class 2016“ frá RSA. Verðlaunin voru veitt fyrir aðferðir og nýjungar við að samnýta öryggiskerfi RSA og aðrar öryggislausnir bankans.

Nýtt öryggiskerfi í netbanka fyrirtækja

Nýtt öryggiskerfi frá RSA var tekið í notkun í netbanka fyrirtækja á árinu. Nýja öryggiskerfið sameinar áhættugreiningu og notkun auðkennislykla með það fyrir augum að hámarka öryggi og koma í veg fyrir fjársvik.

Áhættugreining felst í því að öryggiskerfið lærir að þekkja hegðun og aðstæður hvers viðskiptavinar og fylgist með frávikum frá venjunni.

Landsbankinn býður tvær leiðir til að framkalla auðkennisnúmer, með appi annars vegar og auðkennislykli úr plasti hins vegar. Nota má appið og auðkennislykilinn jöfnum höndum, allt eftir því hvað hentar betur hverju sinni.

Nýjar reiknivélar fyrir bílafjármögnun og íbúðalán

Nýjar reiknivélar fyrir bílafjármögnun og íbúðalán voru gerðar aðgengilegar á ytri vef bankans á árinu. Reiknivélarnar eru einfaldar í notkun og bjóða upp á fleiri möguleika en áður.

Í nýrri reiknivél fyrir íbúðalán geta viðskiptavinir nú skoðað þrjú mismunandi lán á sama tíma og borið saman afborganir og kostnað af hverri lánstegund fyrir sig. Einfalt er að setja upp grunndæmi í reiknivélinni; einungis þarf að velja markaðsverð fasteignar og upphæð þess láns sem viðskiptavinur hyggst taka. Ekki er nauðsynlegt að velja eitt lán af hverri tegund, verðtryggt, óverðtryggt og blandað, heldur er hægt er bera saman þrjú óverðtryggð lán, þrjú verðtryggð lán eða þrjú blönduð lán (eða tvö lán af einni tegund og eitt af annarri).

Reiknivélin fyrir bílafjármögnun er að sama skapi einföld. Viðskiptavinur skráir einfaldlega kaupverð bifreiðar, þá upphæð sem hann hefur þegar til ráðstöfunar og hve langt lánið eða bílasamningurinn á að vera. Reiknivélin sýnir þá mánaðarlega greiðslu, kostnað og greiðsluáætlun. Niðurstöður breytast jafnóðum og forsendum er breytt.

Notkun hraðbanka minnkaði um 5% á milli ára. Á hinn bóginn hækkaði heildarfjárhæð reiðufjár sem tekið var út um 13% á milli áranna 2015 og 2016. Líkt og undanfarin ár varð töluverð aukning á notkun hraðbanka Landsbankans að sumarlagi, færslum fjölgaði og hærri fjárhæðir voru teknar út.

Útibú og afgreiðslur Landsbankans 2008-2016

Landsbankinn hefur undanfarin ár fjölgað hraðbönkum af nýrri kynslóð en í þeim er bæði hægt að taka út og leggja inn reiðufé. Samhliða fjölgun þessara innlagnarhraðbanka hefur notkun þeirra aukist til mikilla muna.

Sem fyrr rekur Landsbankinn víðfeðmasta hraðbankanetið á Íslandi en í árslok 2016 rak bankinn 75 hraðbanka á 63 stöðum víða um land.

Breytingar á útibúaneti

Í árslok 2014 rak Landsbankinn 32 útibú og afgreiðslur. Eftir sameiningu Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands árið 2015 fjölgaði útibúum og afgreiðslum bankans og eru þau nú 37. Landsbankinn rekur sem fyrr langvíðfeðmasta útibúanet íslenskra banka.

Í ársbyrjun 2016 flutti afgreiðsla Landsbankans á Seyðisfirði í húsnæði sýslumannsins á Austurlandi að Bjólfsgötu 7 á Seyðisfirði. Landsbankinn hafði rekið útibú í Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá opnun flugstöðvarinnar, en varð undir í útboði Isavia um áframhaldandi leigu og lokaði því afgreiðslu sinni 30. apríl 2016.

Á árinu 2016 var útibúið á Hvammstanga gert að afgreiðslu sem heyrir til útibúsins á Sauðárkróki. Samskonar breyting verður gerð í Þorlákshöfn á árinu 2017 og mun afgreiðslan þar heyra til Landsbankans á Selfossi. Þessar breytingar eru gerðar í hagræðingarskyni en þær hafa lítil sem engin áhrif á viðskiptavini bankans eða þá þjónustu sem er í boði á þessum stöðum.

Útibúanet Landsbankans

Artboard 1

Nánar um útibúanetið