Mannauður


Landsbankinn vill vera eftirsóttur vinnustaður þar sem metnaður, frumkvæði og hæfileikar starfsfólks fá notið sín. Bankinn hefur innleitt aðferðafræði árangursstjórnunar til að styðja öfluga fyrirtækjamenningu þar sem allir starfsmenn bera ábyrgð á að árangur náist.

Fara neðar

Mannauðsstefna Landsbankans endurspeglar áherslu bankans á gott starfsumhverfi þar sem starfsánægja og öflug þekkingarmiðlun er í fyrirrúmi. Bankinn leggur áherslu á að tryggja launajafnrétti og jöfn starfstækifæri.

Kynjahlutfall hjá Landsbankanum, nokkur dæmi

 
Karlar
 
Konur
Framkvæmdastjórar
50%
50%
Útibússtjórar
64%
36%
Forstöðumenn
74%
26%
Deildarstjórar
47%
53%
Sérfræðingar
46%
54%
Þjónustufulltrúar og gjaldkerar
13%
87%

Jafnréttismál

Landsbankinn hefur unnið markvisst að jafnréttismálum í gegnum tíðina og birt eigin greiningar um laun kynjanna. Í lok árs 2016 hlaut Landsbankinn gullmerki jafnlaunaúttektar PwC annað árið í röð. Landsbankinn var fyrstur banka á Íslandi til að hljóta gullmerkið árið 2015 og er stærsta fyrirtækið á Íslandi sem hefur fengið þessa viðurkenningu.

Bankinn leggur áherslu á að tryggja jafnrétti til launa og hvað varðar starfstækifæri. Gullmerki PwC er mikilvæg staðfesting á stöðu jafnréttismála í bankanum og er jafnframt hvatning til að viðhalda þeirri stöðu til framtíðar. Í jafnréttisstefnu bankans kemur m.a. fram að í Landsbankanum skuli karlar og konur hafa jafna möguleika til starfsframa og njóta sömu réttinda í starfi.

Í stefnunni kemur einnig fram að Landsbankinn stefni að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna, að hjá bankanum skuli störf ekki flokkast sem karla- eða kvennastörf og að konum og körlum skuli greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Þá líðast hvorki einelti, fordómar né kynbundin eða kynferðisleg áreitni.


Fyrirtækjamenning

Unnið er markvisst að því að styðja fyrirtækjamenningu þar sem viðskiptavinurinn er í fyrirrúmi, samstarf er öflugt, framfarir stöðugar og allir starfsmenn taka ábyrgð á árangri. Á árinu var unnið áfram með aðferðafræði árangursstjórnunar sem innleidd var 2015 með það að markmiði að styrkja framangreinda menningu enn frekar. Í stuttu máli gengur árangursstjórnun út á að einbeita sér að því sem skiptir mestu máli fyrir árangur.

Með aðferðafræðinni er fest í sessi áhersla á skýra markmiðasetningu starfseininga og starfsmanna, eftirfylgni markmiða og mat á því hvernig árangur eininga hefur áhrif á heildarmarkmið bankans. Mikil áhersla hefur verið lögð á þátttöku allra starfseininga og hefur árangur verið mjög góður.

Öflugir og sterkir stjórnendur gegna lykilhlutverki í þessari framtíðarsýn, bæði sem virkir þátttakendur og sem fyrirmyndir.

Hluti af innleiðingu fyrirtækjamenningar er skilgreining á hlutverki stjórnenda. Stjórnendalíkan Landsbankans tilgreinir til hvers er ætlast af stjórnendum. Þeir þurfa að hafa persónulegan styrk sem felst m.a. í heilindum, sterkri sjálfsvitund og jákvæðu viðhorfi. 
Stjórnendalíkan
Heildaránægja*

*Á heildina litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu hjá Landsbankanum.

Stjórnendum er ætlað að byggja öfluga liðsheild með því að sinna starfsþróun einstaklinga, hvatningu og tryggja gott samstarf. Hver stjórnandi tekur ábyrgð á árangri sinna starfsmanna, setur skýr markmið, fylgir þeim eftir og tryggir fagmennsku. Stöðugt þarf að huga að stefnu og sýn Landsbankans til þess að tryggja áframhaldandi framfarar. Öll starfsemi miðar svo að því að efla bankann svo hann geti sinnt því hlutverki að vera traustur samherji.

Frammistöðusamtöl

Í Landsbankanum er notað frammistöðumatskerfi. Hver starfsmaður á árlegt frammistöðusamtal við yfirmann sinn og fær skýra umsögn um vinnu sína, endurgjöf um það sem vel hefur gengið og það sem betur mætti fara. Þungamiðja samtalsins er markmiðasetning þar sem línurnar eru lagðar fyrir næsta misseri. Samkvæmt vinnustaðagreiningu eru starfsmenn ánægðir með samtölin og telja þau skila árangri.

Vinnustaðagreining og bankapúlsinn

Landsbankinn framkvæmir ítarlega vinnustaðagreiningu á fyrsta fjórðungi hvers árs og aðra viðaminni um haustið. Sú síðarnefnda kallast bankapúlsinn og er ætlað að fylgja eftir þeim umbótamarkmiðum sem sett eru í kjölfar vinnustaðagreiningarinnar. Saman gefa þessar kannanir mikilvægar vísbendingar um viðhorf starfsmanna til vinnustaðar síns og um starfsánægju þeirra.

Niðurstöður bankapúlsins, sem birtar voru í október 2016, sýndu að starfsánægja innan bankans er mikil og hefur aukist. Um haustið hófust mánaðarlegar mælingar til að fylgjast enn frekar með ánægju starfsmanna.

Fræðslustarf

Hjá Landsbankanum er litið á hæfni og fagþekkingu starfsfólks sem nauðsynlega forsendu árangurs. Markviss fræðslustefna, fjölbreytt námskeið og hvatning til símenntunar sýna að Landsbankinn er til fyrirmyndar í fræðslustarfi fyrir starfsmenn. Fræðslustarf bankans er unnið eftir gæðavottun skv. viðmiðum European Quality Mark (EQM) sem veitt er af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Á árinu 2016 hefur verið lögð áhersla á sérsniðna þjálfun sem tengist stefnuverkefnum bankans. Má þar nefna umfangsmikla stjórnendaþjálfun og vinnustofur um innleiðingu breytinga og samfélagslega ábyrgð. Í þjálfun framlínustarfsfólks hefur verið lögð áhersla á að auka gæði ráðgjafar og að treysta sambandið við viðskiptavini.

Árið 2016 var boðið upp á um 200 fræðsluviðburði og þátttakendur voru um 3.500. Hver starfsmaður bankans sótti að meðaltali um 3 viðburði í fræðsludagskránni. Meirihluti starfsmanna bankans er virkur í símenntun þar sem 81% þeirra sóttu sér einhverja starfstengda símenntun árið 2016, innan eða utan bankans. Meðalfjöldi fræðslustunda á hvert stöðugildi á árinu 2016 var 12,2 klukkustundir.

Fræðsluviðburðir eftir efni 2016
Þátttaka starfsfólks í símenntun árið 2016
Fræðslustarf í tölum
3.500 Þátttakendur í fræðsluviðburðum hjá Landsbankanum á árinu 2016 voru 3.500 talsins.
200 Boðið var upp á 200 fræðsluviðburði hjá Landsbankanum á árinu 2016.
81% 81% starfsmanna bankans sótti sér einhverja starfstengda símenntun árið 2016.
12,2 Meðalfjöldi fræðslustunda á hvert stöðugildi á árinu var 12,2 klukkustundir.
3 Hver starfsmaður bankans sótti að meðaltali 3 viðburði í fræðsludagskránni.