Samfélagsábyrgð er mikilvægur þáttur í starfsemi Landsbankans og rík áhersla er lögð á að hún sé samþætt stefnumörkun bankans í heild. Landsbankinn vill vera í fararbroddi í uppbyggingu velferðar til framtíðar í íslensku samfélagi.
Samfélagsstefna Landsbankans var samþykkt í maí 2011 og, eftir mikla stefnumótunarvinnu veturinn 2014-2015, var ný stefna kynnt í mars 2015. Stefnan var svo endurskoðuð og samþykkt 30. nóvember 2016.
Samstarf er lykilorðið í stefnunni. Í því felst að Landsbankinn, ásamt viðskiptavinum sínum, nýti þau tækifæri sem felast í að vinna að sjálfbærni. Landsbankinn ætlar að vera hreyfiafl í samfélaginu og vinna með öðrum fyrirtækjum og hagsmunaaðilum að samfélagsábyrgð.
Megináherslan er sem fyrr á að vera traustur samherji og til fyrirmyndar, í samfélagsábyrgð jafnt sem öðrum málaflokkum. Hingað til hefur mest verið litið til eigin reksturs (fasteignir, farartæki og mannauðsmál) en nú verður lögð aukin áhersla á vöruframboð bankans, útlán og fjárfestingar.
Framkvæmdahluta stefnunnar er skipt í tvennt, annars vegar aðgerðaáætlun til ársloka 2018 og hins vegar markmið og verkefni bankans til framtíðar. Það er trú bankans að skýr stefna í samfélagsábyrgð hafi jákvæð áhrif á gæði útlána og fjárfestinga til lengri tíma, auk þess sem hún minnki rekstraráhættu bankans.
Við mótun stefnunnar var áhersla lögð á víðtæka aðkomu tekjusviða bankans til að tryggja að samfélagsábyrgð yrði hluti af kjarnastarfsemi bankans. Stefnan grundvallast á niðurstöðum tveggja daga vinnufundar forstöðumanna frá Fyrirtækjasviði, Einstaklingssviði, Mörkuðum, Mannauði, Markaðsdeild og Rekstri og upplýsingatækni. Stefnan hefur þannig víðtæka skírskotun í alla starfsemi bankans.
Samfélagsskýrsla Landsbankans er rituð árlega samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) og verður birt á vef bankans eigi síðar en 22. mars 2017.
Samfélagsskýrsla Landsbankans er rituð árlega samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI). Skýrslan inniheldur samanburðarhæfar upplýsingar frá ári til árs og áhersla er lögð á að leggja fram greinargóðar lýsingar á þeim aðferðum sem viðhafðar eru við innleiðingu og þróun samfélagsábyrgðar í Landsbankanum. Samfélagsskýrslan gegnir einnig hlutverki framvinduskýrslu til UN Global Compact.
Í samfélagskýrslunni er fjallað um þau fjölmörgu verkefni sem bankinn vinnur að sem tengjast samfélagsábyrgð. Þau tengjast rekstrinum, starfsfólkinu og samfélaginu og miða að sparnaði í rekstri, betri nýtingu fjármuna, heilbrigðari lífsmáta og þátttöku bankans og starfsmanna í verkefnum utan bankans.
Í Landsbankanum er markvisst unnið að innleiðingu á stefnu í ábyrgum fjárfestingum til að gera bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir. Það er mat bankans að samþætting umhverfismála, samfélagsmála og góðra stjórnarhátta við mat á fjárfestingarkostum leiði til betri ákvarðanatöku, hafi jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dragi úr rekstaráhættu.
Viðskiptaumhverfið er að breytast og frammistaða í sjálfbærni og samfélagsábyrgð er farin að hafa áhrif á hvernig áhætta í fyrirtækjarekstri er metin, sem og vaxtarmöguleika fyrirtækja.
Bankinn fékk aðild að United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI) í byrjun árs 2013. Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af reglum UN PRI og tekur mið af reglum um áhættuvilja, stórar áhættuskuldbindingar og hámark heildaráhættu, rekstraráhættu, orðsporsáhættu, lausafjáráhættu og góða stjórnarhætti. Þau fyrirtæki sem gangast undir reglur UN PRI skuldbinda sig til að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til þessara þátta í framvinduskýrslu.
Í september stóð bankinn fyrir fjölmennri ráðstefnu um ábyrgar fjárfestingar og innleiðingu þeirra á Íslandi. Aðalræðumaðurinn var Gil Friend frá Natural Logic Inc. en hann er talinn einn af áhrifamestu mönnum Bandaríkjanna á sviði samfélagsábyrgðar.
Í erindi sínu fjallaði Friend um margþættan ávinning fyrirtækja af að marka sér skýra stefnu um samfélagsábyrgð og sjálfbæran rekstur. Það geti til að mynda lækkað rekstrarkostnað og aukið nýsköpun. Mikilvægust væru þó áhrif aðgerða eða aðgerðaleysis á ímynd og orðspor fyrirtækja. Hann segir nauðsynlegt fyrir fyrirtæki og starfsfólk að taka virkan þátt í ferlinu, greina áhættu í rekstrinum, móta stefnu og aðgerðir, kynna markmið sín og árangur og hafa áhrif á önnur fyrirtæki með fordæmi sínu og fyrirmynd.
Landsbankinn vill, með samræðum við fyrirtæki um samfélagsábyrgð, leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til að hagur bankans og fjárfesta verði betur tryggður til framtíðar. Starfshættir Landsbankans varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á virkum samræðum þar sem neikvæð skimun (útilokun) er undantekningartilvik.
Í nóvember hóf Hagfræðideild Landsbankans að greina á skipulagðan máta starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.
Í stefnu bankans um orðsporsáhættu, sem samþykkt var í mars, áskilur Landsbankinn sér rétt til að hafna viðskiptum við aðila sem geta valdið hættu á tjóni á orðspori bankans. Þessir aðilar eru þau undantekningartilvik sem nefnd eru sem hluti af neikvæðri skimun.
Landsbankinn vill vera í fremstu röð í jafnréttismálum. Landsbankinn greiðir sömu laun fyrir sömu störf og tryggir að á meðal starfsmanna sé ekki til staðar óútskýrður kynbundinn launamunur.
Í ár hlaut bankinn gullmerki jafnlaunaúttektar PwC í annað sinn en hann var fyrstur banka á Íslandi til þess að hljóta gullmerkið árið 2015. Gullmerki PwC er mikilvæg staðfesting á stöðu jafnréttismála í bankanum og er jafnframt hvatning til að viðhalda þeirri stöðu til framtíðar. Landsbankinn leggur áherslu á að ráða jafnt konur sem karla í stjórnunarstöður. Þá líðast hvorki einelti, fordómar né kynbundin eða kynferðisleg áreitni.
Landsbankinn skrifaði undir Jafnréttissáttmálann (Women’s Empowerment Principles – Equality means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact, árið 2011. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins en í sáttmálanum eru sjö viðmið sem hafa skal að leiðarljósi við að efla konur innan fyrirtækja og auka þátt þeirra í atvinnulífinu.
Árið 2010 setti bankinn sér það markmið að hlutur hvors kyns um sig í forystusveit bankans yrði aldrei minni en 40%. Framkvæmdastjórar bankans eru nú sex, þrjár konur og þrír karlar.
Landsbankinn stóð fyrir ráðstefnu um Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum í Hörpu í febrúar. Markmið fundarins var að varpa ljósi á margvísleg áhrif sem aðgerðir gegn loftslagsbreytingum kunna að hafa á íslenskt atvinnulíf og fjárfestingar.
Bankinn hefur markvisst unnið að því að gera starfsumhverfið umhverfisvænna. Góður árangur hefur náðst í að draga úr pappírsnotkun og raforkunotkun bankans hefur minnkað til muna svo eitthvað sé nefnt.
Í lok árs keypti Landsbankinn fjóra umhverfisvæna fólksbíla. Þar með er rúmlega þriðjungur af bílaflota bankans orðinn umhverfisvænn.
Þrír af nýju bílunum eru knúnir með metani og einn er rafmagnsbíll. Bílarnir eru ætlaðir til afnota fyrir starfsfólk sem þarf að nota bíl frá bankanum vegna vinnuferða. Stefnt er að því að fjölga metan-og rafmagnsbílum í bílaflota bankans á næstunni.
Markmið samgöngusamninga er að fjölga valmöguleikum starfsmanna hvað varðar samgöngur þannig að þeir geti nýtt sér þann ferðamáta sem best hentar hverju sinni; notað vistvænan ferðamáta þegar hentar en einnig haft aðgang að bíl þegar þess er þörf.
Í samgöngusamningi felst að starfsmenn skuldbinda sig til að nýta annan ferðamáta en einkabílinn vegna ferða til og frá vinnu í 60% tilvika. Bankinn endurgreiðir þeim útlagðan kostnað, allt að 84.000 krónum á ári eða 7.000 kr. mánaðarlega.
Um sl. áramót voru 424 starfsmenn með virka samgöngusamninga, eða 40% af heildarfjölda starfsmanna, sem er aukning frá 36,5% á fyrra ári. Af þeim sem eru með virka samgöngusamninga eru 257 konur og 167 karlar sem er sambærilegt við hlutfall kynjanna í starfsliði bankans.