Landsbankinn styður margvísleg samfélagsverkefni og tekur virkan þátt í fjölbreyttum samstarfsverkefnum sem stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu. Þau eru af ýmsum toga og snerta margar hliðar samfélagsins, s.s. slysavarna- og björgunarstarf, menningu, nýsköpun, ferðaþjónustu og lýðheilsu.
Fjárhagslegur stuðningur Landsbankans til stærri samfélagsverkefna nam rúmlega 89 milljónum króna árið 2016. Þess utan styðja útibú bankans margvísleg verkefni í sinni heimabyggð, þ.m.t. íþrótta- og æskulýðsstarf, mannúðarfélög og frjáls félagasamtök. Mikil áhersla er lögð á að bjóða viðskiptavinum þjónustu og ráðgjöf með skýra samfélagslega tengingu. Þá leggur bankinn áherslu á að vera virkur þátttakandi í samfélagsverkefnum með ráðgjöf og sjálfboðastarfi starfsmanna.
Bankinn styrkir samfélagsverkefni einkum með þrennum hætti. Í fyrsta lagi í gegnum Samfélagssjóð, þar sem engar kröfur eru gerðar á móti styrkjum, í öðru lagi með samstarfssamningum með gagnkvæmum ávinningi og loks fyrir tilstilli útibúa sem styðja vel við bakið á verkefnum í heimabyggð.
Samfélagssjóður Landsbankans gegnir lykilhlutverki í stuðningi bankans við samfélagið. Árið 2016 voru veittir þrenns konar styrkir: námsstyrkir að upphæð sex milljónir, umhverfisstyrkir að upphæð fimm milljónir og samfélagsstyrkir að upphæð fimmtán milljónir, alls 26 milljónir króna.
Samfélagsstuðningur bankans hefur verið í föstum skorðum síðustu ár. Áhersla er lögð á að stuðningur við samfélagið sé fjölbreyttur og að hann nýtist mörgum. Bankinn hefur sett sér þá reglu að dómnefndir skuli skipaðar fagfólki að meirihluta og að farvegur fyrir afgreiðslu styrkja sé skýr til þess að viðskiptavinir bankans og aðrir landsmenn hafi jafna möguleika til að sækja um styrki.
Landsbankinn leitast við að auka beina þátttöku starfsmanna í samfélagsverkefnum, m.a. með ráðgjöf og sjálfboðastarfi á vinnutíma. Starfsmenn hafa boðið fram sérfræðiþekkingu sína við ráðgjöf á ýmsum sviðum sem tengjast fjármálum og nýsköpun. Þá hefur starfsfólk setið í dómnefndum, meðal annars í frumkvöðlakeppninni Gullegginu.
Landsbankinn og Slysavarnafélagið Landsbjörg hófu víðtækt samstarf á árinu sem felur í sér að bankinn verður einn af helstu bakhjörlum félagsins. Samstarfið við Landsbjörgu er eitt af fjölmörgum samstarfsverkefnum bankans á sviði samfélagsmála.
Landsbankinn tekur virkan þátt í verkefninu Fjármálavit sem Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) standa fyrir í samvinnu við aðildarfélögin. Markmiðið er að fræða nemendur tíunda bekkjar í öllum skólum landsins um grunnþætti fjármála og veita innblástur í kennslu um fjármál.
Landsbankinn er einn af aðalstyrktaraðilum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Bankinn vill styðja við bakið á öflugu slysavarna- og björgunarstarfi um allt land. Slysavarnafélagið Landsbjörg er landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi og ein stærstu sjálfboðaliðasamtök á Íslandi. Markmið starfseminnar er að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum.
Nánar um samstarfið
Landsbankinn styður réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi heilshugar og hefur verið stoltur bakhjarl Hinsegin daga í Reykjavík frá upphafi. Auk þess að styðja hátíðina með fjárframlagi hefur Landsbankinn tekið að sér að dreifa dagskrárriti hátíðarinnar í öllum útibúum bankans í því skyni að kynna hátíðina enn betur um land allt. Í kringum hátíðina skartar starfsfólk í öllum útibúum lyklabandi í regnbogalitunum.
Nánar um Hinsegin daga
Viðtöl við þetta efnilega tónlistarfólk má finna á Airwaves-vef Landsbankans, en það kom einnig fram á „off-venue” tónleikum í útibúi bankans við Austurstræti, laugardaginn 5. nóvember, og spilaði fyrir fullu húsi gesta við góðar undirtektir. Landsbankinn stóð ásamt öðrum að setningartónleikum hátíðarinnar í Vestmannaeyjum, þar sem tónlistarfólkið Emmsjé Gauti og Hildur tróðu upp við miklar vinsældir.
Landsbankinn er aðalbakhjarl Skólahreysti og leggur keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum. Vinsældir Skólahreysti hafa aukist ár frá ári og keppa nú yfir 600 krakkar fyrir hönd skóla sinna, auk þess sem nokkur þúsund krakkar eru virkir félagar í stuðningsliðum. Auk Landsbankans nýtur Skólahreysti stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Norrænu ráðherranefndarinnar, Toyota og Íþrótta- og ólympíusambandsins.
Landsbankinn hefur átt mjög gefandi samstarf við UN Women á Íslandi undanfarin ár og verið bakhjarl landsnefndarinnar í mikilvægum verkefnum. Bankinn er til að mynda bakhjarl HeForShe-verkefnisins en markmið þess er að hvetja karla og stráka til að láta til sín taka í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á öllum vígstöðvum. Síðastliðið haust styrkti bankinn nýja HeForShe-herferð undir slagorðinu #Ekki hata sem ætlað var að berjast gegn netníði. Mikilvægur hluti herferðarinnar var myndband sem sýnir hvernig gróft kynbundið ofbeldi í garð kvenna og stelpna grasserar á spjallþráðum.
Landsbankinn skrifaði árið 2011 undir Jafnréttissáttmálann (Women’s Empowerment Principles – Equality Means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins.
Landsbankinn hefur verið virkur þátttakandi í Menningarnótt frá upphafi. Bankinn hefur bæði opnað dyr sínar fyrir gestum og gangandi og verið bakhjarl hátíðarinnar alla tíð. Það hefur verið bankanum kappsmál að fjárstuðningur hans renni beint til listamanna og -hópa sem skipuleggja viðburði á Menningarnótt.
Til að ná því markmiði var stofnaður sérstakur Menningarnæturpottur á vegum Höfuðborgarstofu og Landsbankans.
Markmið hans er að veita frumlegum og sérstökum hugmyndum brautargengi. Í ár fengu 32 verkefni styrki. Potturinn er góð viðbót við farsælt samstarf Höfuðborgarstofu og Landsbankans í gegnum tíðina. Fjölmenni lagði leið sína í útibú Landsbankans á Menningarnótt í ár þar sem boðið var upp á listaverkagöngu, harmónikkuleik og kórsöng, auk þess sem Leikhópurinn Lotta sló í gegn hjá yngstu gestunum og tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant tróð upp.
Nánar um Menningarnótt
Landsbankinn er bakhjarl Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, ásamt tíu öðrum fyrirtækjum. Landsbankinn hefur styrkt stofnun Vigdísar með veglegum hætti á síðustu árum. Styrkjum til stofnunarinnar verður varið til daglegrar starfsemi vegna undirbúnings Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum Mennta-, vísinda, og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).
Með starfsemi alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar er ætlunin að heiðra störf Vigdísar í þágu tungumála og halda áfram því brautryðjendastarfi sem hún hefur unnið á alþjóðavettvangi sem fyrsti og eini velgjörðarsendiherra tungumála í heiminum hjá UNESCO.
Landsbankinn er bakhjarl Knattspyrnusambands Íslands. Ásamt fimm öðrum fyrirtækjum styrkir Landsbankinn uppbyggingarstarf íslenskrar knattspyrnu um land allt, öll yngri landslið og A-landslið karla og kvenna.
Í tilefni af þátttöku karlalandsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi stóð Landsbankinn ásamt öðrum bakhjörlum KSÍ fyrir EM torgi á Ingólfstorgi og Arnarhóli. Þar gafst tækifæri til að horfa á alla leiki mótsins og upplifa frábæra skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Nánar um Svanna
Landsbankinn hefur verið aðili að klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012. Helsta markmið þess er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan ferðaþjónustunnar og er verkefnið unnið í anda klasaaðferðafræði Michaels Porters. Að klasasamstarfinu standa lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónustu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við greinina.
Nánar um öndvegissetrið
Nánar um Íslenska sjávarklasann