Samstarf og stuðningur


Landsbankinn styður margvísleg samfélagsverkefni og tekur virkan þátt í fjölbreyttum samstarfsverkefnum sem stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu. Þau eru af ýmsum toga og snerta margar hliðar samfélagsins, s.s. slysavarna- og björgunarstarf, menningu, nýsköpun, ferðaþjónustu og lýðheilsu.

Fara neðar
Samfélagsstuðningur Landsbankans er mikilvægur liður í stefnu bankans um samfélagsábyrgð. Bankinn styður margvísleg samfélagsverkefni með fjárframlögum úr Samfélagssjóði, með stuðningi útibúa við verkefni í nærsamfélagi og með gagnkvæmum samstarfssamningum.

Fjárhagslegur stuðningur Landsbankans til stærri samfélagsverkefna nam rúmlega 89 milljónum króna árið 2016. Þess utan styðja útibú bankans margvísleg verkefni í sinni heimabyggð, þ.m.t. íþrótta- og æskulýðsstarf, mannúðarfélög og frjáls félagasamtök. Mikil áhersla er lögð á að bjóða viðskiptavinum þjónustu og ráðgjöf með skýra samfélagslega tengingu. Þá leggur bankinn áherslu á að vera virkur þátttakandi í samfélagsverkefnum með ráðgjöf og sjálfboðastarfi starfsmanna.

Bankinn styrkir samfélagsverkefni einkum með þrennum hætti. Í fyrsta lagi í gegnum Samfélagssjóð, þar sem engar kröfur eru gerðar á móti styrkjum, í öðru lagi með samstarfssamningum með gagnkvæmum ávinningi og loks fyrir tilstilli útibúa sem styðja vel við bakið á verkefnum í heimabyggð.

Heildarstuðningur við samfélagsmál

89milljónir króna
Styrkþegar úr Samfélagssjóði

Markmið með styrkjum úr Samfélagssjóði

  • Fjölbreyttur stuðningur við samfélagið sem nýtist mörgum.
  • Fagfólk skipar meirihluta dómnefnda.
  • Jafnræði og dreifing við úthlutun styrkja er tryggð eins og kostur er.
  • Skýr farvegur fyrir styrkveitingar bankans.

Samfélagssjóður

Samfélagssjóður Landsbankans gegnir lykilhlutverki í stuðningi bankans við samfélagið. Árið 2016 voru veittir þrenns konar styrkir: námsstyrkir að upphæð sex milljónir, umhverfisstyrkir að upphæð fimm milljónir og samfélagsstyrkir að upphæð fimmtán milljónir, alls 26 milljónir króna.

Samfélagsstuðningur bankans hefur verið í föstum skorðum síðustu ár. Áhersla er lögð á að stuðningur við samfélagið sé fjölbreyttur og að hann nýtist mörgum. Bankinn hefur sett sér þá reglu að dómnefndir skuli skipaðar fagfólki að meirihluta og að farvegur fyrir afgreiðslu styrkja sé skýr til þess að viðskiptavinir bankans og aðrir landsmenn hafi jafna möguleika til að sækja um styrki.

Öflug tenging við samfélagið

Landsbankinn leitast við að auka beina þátttöku starfsmanna í samfélagsverkefnum, m.a. með ráðgjöf og sjálfboðastarfi á vinnutíma. Starfsmenn hafa boðið fram sérfræðiþekkingu sína við ráðgjöf á ýmsum sviðum sem tengjast fjármálum og nýsköpun. Þá hefur starfsfólk setið í dómnefndum, meðal annars í frumkvöðlakeppninni Gullegginu.

Landsbankinn og Slysavarnafélagið Landsbjörg hófu víðtækt samstarf á árinu sem felur í sér að bankinn verður einn af helstu bakhjörlum félagsins. Samstarfið við Landsbjörgu er eitt af fjölmörgum samstarfsverkefnum bankans á sviði samfélagsmála.

Landsbankinn tekur virkan þátt í verkefninu Fjármálavit sem Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) standa fyrir í samvinnu við aðildarfélögin. Markmiðið er að fræða nemendur tíunda bekkjar í öllum skólum landsins um grunnþætti fjármála og veita innblástur í kennslu um fjármál.


Slysavarnafélagið Landsbjörg

Landsbjargarkona að síga

Landsbankinn er einn af aðalstyrktaraðilum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Bankinn vill styðja við bakið á öflugu slysavarna- og björgunarstarfi um allt land. Slysavarnafélagið Landsbjörg er landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi og ein stærstu sjálfboðaliðasamtök á Íslandi. Markmið starfseminnar er að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum.

 

Nánar um samstarfið

Hinsegin dagar

Gleðigangan

Landsbankinn styður réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi heilshugar og hefur verið stoltur bakhjarl Hinsegin daga í Reykjavík frá upphafi. Auk þess að styðja hátíðina með fjárframlagi hefur Landsbankinn tekið að sér að dreifa dagskrárriti hátíðarinnar í öllum útibúum bankans í því skyni að kynna hátíðina enn betur um land allt. Í kringum hátíðina skartar starfsfólk í öllum útibúum lyklabandi í regnbogalitunum.

 

Nánar um Hinsegin daga

Iceland Airwaves

Tónlistarmaðurinn Auður
Landsbankinn er stoltur bakhjarl tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves. Stuðningur við ungt tónlistarfólk sameinar samfélagsábyrgð bankans og viðleitni til að veita listum og menningu í landinu virkan stuðning. Líkt og í fyrra fékk Landsbankinn ungt og efnilegt tónlistarfólk til að aðstoða við að hita upp fyrir hátíðina, sem var haldin dagana 2.-6. nóvember, en fyrir valinu urðu hljómsveitirnar East of my Youth og RuGl, ásamt tónlistarmanninum Auði.

Viðtöl við þetta efnilega tónlistarfólk má finna á Airwaves-vef Landsbankans, en það kom einnig fram á „off-venue” tónleikum í útibúi bankans við Austurstræti, laugardaginn 5. nóvember, og spilaði fyrir fullu húsi gesta við góðar undirtektir. Landsbankinn stóð ásamt öðrum að setningartónleikum hátíðarinnar í Vestmannaeyjum, þar sem tónlistarfólkið Emmsjé Gauti og Hildur tróðu upp við miklar vinsældir.

 

Iceland Airwaves vefur Landsbankans

Skólahreysti

Sigurvegarar í Skólahreysti

Landsbankinn er aðalbakhjarl Skólahreysti og leggur keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum. Vinsældir Skólahreysti hafa aukist ár frá ári og keppa nú yfir 600 krakkar fyrir hönd skóla sinna, auk þess sem nokkur þúsund krakkar eru virkir félagar í stuðningsliðum. Auk Landsbankans nýtur Skólahreysti stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Norrænu ráðherranefndarinnar, Toyota og Íþrótta- og ólympíusambandsins.

UN Women

Landsbankinn hefur átt mjög gefandi samstarf við UN Women á Íslandi undanfarin ár og verið bakhjarl landsnefndarinnar í mikilvægum verkefnum. Bankinn er til að mynda bakhjarl HeForShe-verkefnisins en markmið þess er að hvetja karla og stráka til að láta til sín taka í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á öllum vígstöðvum. Síðastliðið haust styrkti bankinn nýja HeForShe-herferð undir slagorðinu #Ekki hata sem ætlað var að berjast gegn netníði. Mikilvægur hluti herferðarinnar var myndband sem sýnir hvernig gróft kynbundið ofbeldi í garð kvenna og stelpna grasserar á spjallþráðum.

Landsbankinn skrifaði árið 2011 undir Jafnréttissáttmálann (Women’s Empowerment Principles – Equality Means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins.

 

Menningarnótt

Tónlistarmaðurinn Júlíus Meyvant

Landsbankinn hefur verið virkur þátttakandi í Menningarnótt frá upphafi. Bankinn hefur bæði opnað dyr sínar fyrir gestum og gangandi og verið bakhjarl hátíðarinnar alla tíð. Það hefur verið bankanum kappsmál að fjárstuðningur hans renni beint til listamanna og -hópa sem skipuleggja viðburði á Menningarnótt.

Til að ná því markmiði var stofnaður sérstakur Menningarnæturpottur á vegum Höfuðborgarstofu og Landsbankans.

Markmið hans er að veita frumlegum og sérstökum hugmyndum brautargengi. Í ár fengu 32 verkefni styrki. Potturinn er góð viðbót við farsælt samstarf Höfuðborgarstofu og Landsbankans í gegnum tíðina. Fjölmenni lagði leið sína í útibú Landsbankans á Menningarnótt í ár þar sem boðið var upp á listaverkagöngu, harmónikkuleik og kórsöng, auk þess sem Leikhópurinn Lotta sló í gegn hjá yngstu gestunum og tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant tróð upp.

 

Nánar um Menningarnótt

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

Landsbankinn er bakhjarl Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, ásamt tíu öðrum fyrirtækjum. Landsbankinn hefur styrkt stofnun Vigdísar með veglegum hætti á síðustu árum. Styrkjum til stofnunarinnar verður varið til daglegrar starfsemi vegna undirbúnings Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum Mennta-, vísinda, og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).

Með starfsemi alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar er ætlunin að heiðra störf Vigdísar í þágu tungumála og halda áfram því brautryðjendastarfi sem hún hefur unnið á alþjóðavettvangi sem fyrsti og eini velgjörðarsendiherra tungumála í heiminum hjá UNESCO.

Knattspyrnusamband Íslands

Víkingaklappið

Landsbankinn er bakhjarl Knattspyrnusambands Íslands. Ásamt fimm öðrum fyrirtækjum styrkir Landsbankinn uppbyggingarstarf íslenskrar knattspyrnu um land allt, öll yngri landslið og A-landslið karla og kvenna.

Í tilefni af þátttöku karlalandsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi stóð Landsbankinn ásamt öðrum bakhjörlum KSÍ fyrir EM torgi á Ingólfstorgi og Arnarhóli. Þar gafst tækifæri til að horfa á alla leiki mótsins og upplifa frábæra skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

 

Gulleggið

Frá undirritun Landsbankinn er styrktaraðili Gulleggsins sem er árleg frumkvöðlakeppni á vegum Icelandic Startups. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga um allt frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta.

 

Konur í orkumálum

Frá undirritun Félagið Konur í orkumálum er nýtt félag sem er opið öllum sem starfa við orkumál eða hafa áhuga á orkumálum á Íslandi. Markmið félagsins er að fræða og miðla upplýsingum um orkumál og jafnframt stuðla að betri tengslum milli kvenna sem starfa í orkugeiranum. Landsbankinn er bakhjarl félagsins.

 

Iceland Luxury

Merki Iceland Luxury Landsbankinn hefur ásamt Icelandair Group, Bláa lóninu, og Meet in Reykjavík tekið höndum saman um stefnumarkandi verkefni til þriggja ára sem miðar að markaðssetningu á Reykjavík og Íslandi fyrir ferðamenn sem krefjast hágæðaþjónustu. Verkefnið ber heitið Iceland Luxury og er hýst og því stjórnað af Meet in Reykjavík. Markmið þessa samkomulags er að stuðla að langtímastefnumörkun á þessu sviði, styrkja ímynd Reykjavíkur og Íslands í augum vel stæðra ferðamanna, auka samtakamátt fyrirtækja sem starfa á þessum markaði, og hvetja til þróunar innviða og þjónustu fyrir þennan markhóp. Samstarfið er framhald af þeirri uppbyggingu sem hófst með stofnun Meet in Reykjavík árið 2012 og styður Landsbankinn einnig þá starfsemi.
 

Ísland allt árið

Merki Inspired by Iceland Landsbankinn hefur frá upphafi stutt markaðsverkefnið Ísland – allt árið. Tilgangur verkefnisins er að festa ferðaþjónustu enn betur í sessi sem heilsársatvinnugrein og auka arðsemi hennar með það fyrir augum að skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Markaðssetning fer fram undir formerkjum Inspired by Iceland og sér Íslandsstofa um framkvæmdina.

 

Fjármálafræðsla

Nemendur í fjármálafræðslu Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á fjármálafræðslu fyrir ungmenni í grunn- og framhaldsskólum. Bankinn tekur virkan þátt í verkefninu Fjármálavit, sem er kennsluefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla, en það eru Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) sem standa að verkefninu í samstarfi við aðildarfélögin. Starfsfólk aðildarfélaga SFF um allt land heimsækir skóla á sínu svæði og miðlar námsefninu. Í ár hafa 30 starfsmenn Landsbankans tekið þátt í verkefninu og frætt nemendur víða um land. Fjármálavit hefur heimsótt alls 4300 nemendur í 10. bekk í vetur.

 

Aldrei fór ég suður

Aldrei fór ég suður Landsbankinn er einn af aðalbakhjörlum rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður sem haldin er á Ísafirði um hverja páska. Landsbankinn hefur staðið á bak við hátíðina, sem stofnuð var af tónlistarmanninum Mugison og föður hans, allt frá árinu 2010 og vill með því sýna í verki stuðning sinn við grasrótarstarf í íslenskri tónlist. Fríður hópur flytjenda kom fram á hátíðinni í ár, m.a. Emiliana Torrini, Agent Fresco og Úlfur Úlfur.

 

Stuðningur við íþróttir og æskulýðsstarf

Frá skákmóti í útibúi Landsbankans Austurstræti
Landsbankinn kappkostar að styðja íslenskt íþróttalíf. Það gera útibú bankans með beinum samstarfssamningum við íþróttafélög hringinn í kringum landið. Í slíku samstarfi leggur bankinn mikla áherslu á að styðja barna- og unglingastarf og að stuðningurinn nýtist körlum og konum jafnt.

Lánatryggingasjóðurinn Svanni

Frá undirritun
Í samstarfi við Svanna – lánatryggingasjóð kvenna veitir Landsbankinn konum í atvinnurekstri lán sem sjóðurinn og bankinn ábyrgjast sameiginlega. Landsbankinn veitir helming ábyrgðar á móti sjóðnum og tryggir þannig konum í nýrri starfsemi rýmri aðgang að fjármagni en ella og eykur möguleika þeirra á að stofna fyrirtæki. Samstarfssamningurinn er liður Landsbankans í að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar í landinu.

 

Nánar um Svanna

Klasasamstarf í ferðaþjónustu

Ferðamenn við Strokk

Landsbankinn hefur verið aðili að klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012. Helsta markmið þess er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan ferðaþjónustunnar og er verkefnið unnið í anda klasaaðferðafræði Michaels Porters. Að klasasamstarfinu standa lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónustu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við greinina.

Öndvegissetur um verndun hafsins

Merki öndvegisseturs um verndun hafsins
Landsbankinn er einn af stofnaðilum Hafsins, öndvegisseturs um verndun hafsins, en setrinu er ætlað að vinna að útfærslu hugmynda um verndun hafsins með því að draga úr mengun með grænni tækni. Verkefnið er í senn umfangsmikið og metnaðarfullt og er stutt af fjölmörgum aðilum auk Landsbankans. Hafið er vettvangur samstarfs fyrirtækja, opinberra aðila og rannsóknarstofnana sem vilja vinna að hafverndarmálum á alþjóðavettvangi.

 

Nánar um öndvegissetrið

Ráðstefnuborgin Reykjavík

Harpa - ráðstefnu- og tónlistarhús
Landsbankinn er þátttakandi í samtökunum Ráðstefnuborgin Reykjavík, sem heldur úti kynningar- og markaðsstarfi undir nafninu „Meet in Reykjavík“. Markmið samtakanna er að fjölga ráðstefnugestum til Reykjavíkur og nágrennis, lengja ferðamannatímann inn í vetramánuðina og nýta þannig betur þá innviði sem til staðar eru. Ráðstefnuborgin Reykjavík er samstarfsverkefni fjölmargra fyrirtækja, m.a. Icelandair, Reykjavíkurborgar og Hörpu tónlistarhúss, og er markhópurinn að stærstum hluta erlendir ráðstefnuhaldarar og gestir.

Háskólasjóður Eimskipafélagsins

Aðalbygging Háskóla Íslands Háskólasjóður Eimskipafélagsins er í vörslu Landsbankans og hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2005. Það ár voru gerðar veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi sjóðsins með það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum eftir þær breytingar fór fram árið 2006 og nú hafa yfir 80 doktorsnemar í fjölmörgum fræðigreinum stundað rannsóknir og nám við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins.

 

Íslenski sjávarklasinn

Merki Íslenska sjávarklasans
Landsbankinn er samstarfsaðili Íslenska sjávarklasans, en tilgangur hans er að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á nýtingu sjávar, með beinum eða óbeinum hætti. Íslenski sjávarklasinn hefur frá stofnun stuðlað að framþróun og nýsköpun í þeim greinum sem mynda klasann, í samstarfi við fyrirtæki og menntastofnanir, og stendur fyrir útgáfu greininga og rannsókna af ýmsu tagi. Um 60 fyrirtæki og stofnanir í margvíslegri sjávartengdri starfsemi á Íslandi eiga formlega aðild að samstarfsvettvangi Íslenska sjávarklasans.

 

Nánar um Íslenska sjávarklasann