Helga Björk Eiríksdóttir var kjörin formaður bankaráðs Landsbankans í apríl 2016. Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, tók tímabundið við starfi bankastjóra í nóvember 2016.
Rekstur Landsbankans gekk vel á árinu 2016. Aðstæður í efnahagslífinu voru góðar og viðskiptavinum bankans vegnaði flestum vel.
Frá ársbyrjun 2015 hefur starfsfólk bankans unnið ötullega að innleiðingu á metnaðarfullri stefnu bankans til ársins 2020. Landsbankinn hefur markvisst bætt þjónustu við viðskiptavini og á sama tíma hafa mikilvæg skref verið stigin til að styrkja grunnrekstur bankans.
Frá árinu 2013 hefur bankinn greitt meirihluta hagnaðar fyrra árs til hluthafa en jafnframt gætt að því að viðhalda sterkri lausa- og eiginfjárstöðu. Landsbankinn greiddi hluthöfum sínum 28,5 milljarða króna í arð á árinu 2016. Á árunum 2013-2016 greiddi bankinn hluthöfum sínum alls um 82 milljarða króna í arð og þar af runnu rúmlega 98% til ríkissjóðs. Á aðalfundi Landsbankans 22. mars nk. mun bankaráð leggja til að bankinn greiði 13 milljarða króna í arð vegna afkomu ársins 2016. Verði sú tillaga samþykkt munu arðgreiðslur Landsbankans á árunum 2013-2017 samtals nema um 95 milljörðum króna. Ennfremur ætlar bankaráð að leggja fyrir aðalfundinn tillögu um greiðslu sérstaks arðs í september 2017.
Gæði útlánasafns bankans héldu áfram að aukast á árinu 2016. Það er einkar ánægjulegt að í lok árs var vanskilahlutfall lægra en nokkru sinni frá stofnun bankans, eða 1,5%.
Nafn | Eignarhlutur |
Ríkissjóður Íslands | 98,20% |
Landsbankinn hf. | 1,47% |
Aðrir hluthafar* | 0,33% |
Í október 2016 hækkaði matsfyrirtækið Standard & Poor’s lánshæfismat Landsbankans í BBB/A-2 með jákvæðum horfum. Batnandi kjör og góðar viðtökur á erlendum mörkuðum gerðu bankanum kleift að greiða niður skuld bankans við LBI ehf. um 61 milljarð króna á síðasta ári. Bankinn stefnir að því að greiða upp skuldina á árinu 2017.
Dómar Hæstaréttar í fjórum gengislánamálum setja nokkurn svip á afkomu bankans á árinu 2016. Afkoman var engu að síður viðunandi en Landsbankinn hagnaðist um 16,6 milljarða eftir skatta. Efnahagur bankans er afar traustur en eigið fé bankans í árslok var 251,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 30,2%.
Í september tilkynnti bankaráð Landsbankans um endurkaupaáætlun hlutabréfa í samræmi við heimild aðalfundar. Bankinn keypti eigin bréf að andvirði 1.391 milljóna króna á tveimur endurkaupatímabilum. Þriðja og síðasta endurkaupatímabilið hefst 13. febrúar og lýkur 24. febrúar 2017. Í árslok 2016 voru hluthafar bankans 1.003.
Bankaráðið tók nokkrum breytingum á aðalfundi bankans í apríl á síðasta ári. Ég varð fyrsta konan til að stýra bankaráði Landsbankans þegar Tryggvi Pálsson lét af störfum sem formaður bankaráðs og hætti setu í bankaráði. Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Kristján Davíðsson, Jóhann Hjartarson og Jón Sigurðsson hættu þá einnig í bankaráði. Ég þakka þeim samstarfið og góð kynni. Nýir bankaráðsmenn eru Magnús Pétursson, Berglind Svavarsdóttir, Einar Þór Bjarnason, Hersir Sigurgeirsson og Jón Guðmann Pétursson. Í nóvember tilkynnti Ásbjörg Kristinsdóttir að hún segði af sér sem varamaður í bankaráði Landsbankans. Danielle Pamela Neben sat í bankaráði frá apríl 2013 en hefur nú látið af störfum. Er henni þakkað fyrir gott starf í þágu bankans.
Bankaráðið lítur björtum augum til framtíðar. Landsbankinn stendur vel og tækifærin eru til staðar. Vissulega er þörf á að bæta grunnrekstur bankans enn frekar og miklar áskoranir eru framundan, s.s. innleiðing á nýju regluverki um starfsemi bankans, harðnandi samkeppni innanlands sem utan, hraðfara tækniþróun og auknar kröfur viðskiptavina um fjölbreytta þjónustu.
Bankaráð lítur svo á að kafla endurskipulagningar í kjölfar fjármálahrunsins sé að mestu lokið. Bankaráð þakkar Steinþóri Pálssyni sem lét af störfum bankastjóra í lok nóvember sl. fyrir mikilvægt starf í þágu bankans frá miðju ári 2010 og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.
Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, hefur gegnt stöðu bankastjóra frá 30. nóvember. Lilja Björk Einarsdóttir mun hefja störf sem bankastjóri Landsbankans 15. mars nk. Hún hefur mikla reynslu og þekkingu á rekstri fjármálafyrirtækja. Bankaráðið treystir henni til að stýra öflugum hópi starfsfólks Landsbankans til góðra verka til hagsbóta fyrir viðskiptavini, hluthafa og samfélagið allt.
Landsbankinn er stærsti banki landsins, hvort sem litið er til fjölda viðskiptavina eða efnahagsreiknings. Hann gegnir því mikilvægu hlutverki í efnahagslífi landsins og vegna stærðar, eignarhalds og sögu bankans skipar hann sérstakan sess í hugum landsmanna. Stefna bankans er að vera til fyrirmyndar í starfi og að viðskiptavinir hans geti með sanni sagt: Svona á banki að vera.
*Tillaga bankaráðs til aðalfundar 22. mars 2017.
Landsbankinn er sem fyrr stærsta fjármálafyrirtæki landsins og fjárhagsstaða bankans er afar sterk. Grunnrekstur Landsbankans gekk vel á árinu, hreinar vaxta- og þóknanatekjur jukust töluvert frá fyrra ári, en á sama tíma hefur rekstrarkostnaður bankans lækkað.
Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aldrei mælst hærri og staða bankans á fyrirtækjamarkaði og á fjármálamörkuðum er áfram sterk. Þá sýna mælingar að ánægja viðskiptavina bankans jókst umtalsvert á árinu sem er okkur afar mikilvægt, enda leggur bankinn mikla áherslu á að veita viðskiptavinum sínum um allt land fyrirmyndarþjónustu á samkeppnishæfum kjörum.
Standard & Poor’s hækkaði lánshæfismat Landsbankans annað árið í röð, upp í BBB/A-2 og er matið áfram með jákvæðar horfur. Þetta er ánægjuleg viðurkenning á því frábæra starfi sem unnið hefur verið í bankanum mörg undanfarin ár.
Landsbankinn hefur lengi lagt áherslu á að rekstur bankans verði arðsamur þegar stórum og óvenjulegum liðum sleppir. Sú stefna hefur skilað árangri og bankinn mun halda áfram á sömu braut.
Landsbankinn stendur traustum fótum. Eigið fé bankans í árslok 2016 nam 251,2 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 30,2%, langt umfram kröfur eftirlitsaðila. Þessi sterka staða hefur gert bankanum kleift að greiða út verulegan arð til hluthafa á undanförnum árum og útlit er fyrir að svo verði áfram.
*Mestu munaði um samruna Landsbankans og SP-KEF
Tækniþróun hefur haft mikil áhrif á bankaþjónustu og á næstu árum má búast við að breytingarnar verði enn meiri og örari. Landsbankinn leggur sem fyrr mikla áherslu á framþróun í stafrænni tækni.
Undanfarin ár hafa netbankar einstaklinga og fyrirtækja, sem og farsímabanki Landsbankans, verið endurnýjaðir. Vel hefur tekist til og má nefna að farsímabankinn, l.is, var valinn besta vefappið af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna 2016, en áður hafði netbanki einstaklinga tvívegis verið útnefndur besta þjónustusvæðið. Þá var Umræðan, nýr vefur Landsbankans um samfélagsmál, efnahagsmál og fjármál, valin besta efnis- og fréttaveitan árið 2016.
Undanfarin misseri hefur mikill kraftur verið lagður í að innleiða nýtt innlána- og greiðslukerfi í samvinnu við Reiknistofu bankanna. Nýja kerfið leysir af hólmi heimasmíðuð grunnkerfi RB sem sum eru yfir 40 ára gömul og endurnýjun því tímabær. Þegar þessu verkefni lýkur á árinu 2017 verður bankinn enn betur í stakk búinn til að bjóða upp á fjölbreyttar stafrænar lausnir í bankaviðskiptum.
Það skiptir bankann og viðskiptavini hans miklu máli að Landsbankinn hafi aðgang að erlendum fjármálamörkuðum. Erlend skuldabréfaútgáfa bankans á árinu 2016 heppnaðist afar vel. Þar ber hæst útgáfa 500 milljóna evra skuldabréfs í september sem var á betri kjörum en höfðu staðið íslenskum banka til boða um langt skeið. Andvirði útgáfunnar var einkum notað til að fyrirframgreiða óhagkvæmari fjármögnun. Í október hækkað Standard & Poor’s lánshæfismat bankans upp í BBB. Aðgangur Landsbankans að erlendu lánsfjármagni er nú greiðari en áður, sem meðal annars opnar möguleika fyrir bankann að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan sinni á næstu misserum og árum.
Sem stærsta fjármálafyrirtæki landsins og fjölmennur vinnustaður, hefur Landsbankinn ríku samfélagslegu hlutverki að gegna. Í stefnu bankans er lögð áhersla á að samfélagsábyrgð sé samofin allri starfsemi bankans. Bankinn hefur sett sér skýra stefnu um ábyrgar fjárfestingar og í nóvember hóf Hagfræðideild bankans að greina með skipulögðum hætti starfsemi skráðra félaga með tilliti til sjálfbærni og samfélagsábyrgðar. Bankinn hefur um árabil lagt ríka áherslu á jafnréttimál. Því var afar ánægjulegt og um leið mikilvægt að bankinn hlaut í desember 2016 gullmerki Jafnlaunavottunar PwC í annað sinn. Áður hlaut bankinn gullmerkið árið 2015, fyrstur íslenskra banka.
Í nóvember lét Steinþór Pálsson af störfum sem bankastjóri Landsbankans. Fyrir hönd starfsfólks bankans færi ég honum þakkir fyrir gott samstarf á krefjandi tímum og góða viðkynningu.
Hlutverk Landsbankans er að vera hreyfiafl í samfélaginu og traustur samherji viðskiptavina sinna. Við erum afar ánægð með að sífellt fleiri einstaklingar og fyrirtæki beini viðskiptum sínum til bankans. Okkar stefna er skýr: Við viljum að viðskiptavinir finni að með bankanum nái þeir árangri. Ég þakka viðskiptavinum og samstarfsfólki fyrir árangursríkt samstarf á árinu 2016.