Stefna og stjórnarhættir


Grundvallaratriði í stefnu bankans til ársins 2020 er að hann verði til fyrirmyndar og sé traustur samherji í fjármálum. Landsbankinn ætlar að skara fram úr í þjónustu og samskiptum við viðskiptavini.

Fara neðar

Á árinu 2016 var áfram unnið að innleiðingu og framkvæmd stefnunnar. Stærstu verkefni ársins fólust í breytingum á innviðum og fyrirtækjamenningu bankans. Ný tölvukerfi voru tekin í notkun og eldri kerfi voru aflögð. Ferlar voru einfaldaðir og rafvæddir og breytingar gerðar við sölu og ráðgjöf til viðskiptavina í þeim tilgangi að miða samskipti við viðskiptavini við þeirra þarfir og væntingar um þjónustu, svo það helsta sé nefnt.

Vel skipulögð innleiðing á skýrri stefnu

Til að fylgja eftir innleiðingu stefnunnar til 2020 skilgreindi bankinn fimm lykilmarkmið og sjö verkstrauma.

Stjórnskipulag innleiðingarinnar er mjög skýrt. Framkvæmdastjórn fylgist með og tryggir markvissa framvindustýringu og framtíðarnefnd bankaráðs hefur eftirlit með því hvernig innleiðingu stefnunnar vindur fram. Innleiðingin er drifin áfram af verkefnum sem eru valin út frá markmiðum hvers verkstraums og árangur í verkefnunum hreyfir við árangursmælikvörðum stefnunnar.

Þessari vinnu hefur verið fylgt eftir með upplýsingamiðlun til allra starfsmanna, m.a. með tíðum fréttum af innleiðingu stefnunnar og verkefnum sem henni tengjast á innra neti bankans.

 • Við setjum viðskiptavininn í forgang.
 • Við byggjum á öflugu samstarfi og stöðugum framförum.
 • Hjá okkur tekur hver og einn ábyrgð á að árangur náist.

Lykilmarkmiðin fimm snúast um

 • Ánægju viðskiptavina
 • Arðsemi bankans
 • Kostnaðarhagkvæmni
 • Áhættuvilja
 • Ánægt starfsfólk

Lykilþáttur í árangri við innleiðingu á stefnu bankans liggur í skiptingu stefnunnar í sjö aðskilda verkstrauma. Verkstraumarnir leggja grunninn að skýrri ábyrgð við ákvarðanatöku og á verkefnum innan hvers verkstraums.

Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði

37,1%

Verkstraumur 1: Fyrirmyndarþjónusta - einstaklingar

Á árinu 2016 þáðu um 8.300 viðskiptavinir 360° ráðgjöf sem er alhliða fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga. Mælingar Gallup sýna að viðskiptavinir eru mjög ánægðir með ráðgjöfina og skv. Gallup-könnun frá því í september sl. voru viðskiptavinir sem höfðu þegið 360° ráðgjöf þeir ánægðustu í bankakerfinu. Á árinu var einnig lögð mikil áhersla á verkefnið Betri bankaviðskipti en liður í því er að kenna og aðstoða viðskiptavini við að nota sjálfsafgreiðslulausnir. Nánar er fjallað um þjónustu við einstaklinga í kaflanum Einstaklingar.

Verkstraumur 2: Fyrirmyndarþjónusta – fyrirtæki og markaðir

Landsbankinn er sem fyrr með afar sterka markaðshlutdeild á fyrirtækjamarkaði og samkvæmt mælingum sem Gallup gerir fyrir bankann hefur ánægja fyrirtækja með þjónustu bankans verið að aukast. Bankinn er leiðandi á mörgum sviðum, m.a. meðal stærri fyrirtækja, og þá er bankinn umsvifamestur í fjármögnun mannvirkja, hvort sem litið er til íbúða- eða hótelbygginga. Talsverð aukning varð einnig á viðskiptum bankans við fyrirtæki í verslun og þjónustu. Nánar er fjallað um þjónustu við fyrirtæki í kaflanum Fyrirtæki

Markaðir Landsbankans náðu góðum árangri á árinu 2016 og jukust viðskipti á nánast öllum sviðum. Landsbankinn var, líkt og árið 2015, með mesta hlutdeild á hlutabréfamarkaði í Kauphöllinni og næstmesta hlutdeild á skuldabréfamarkaði. Markaðshlutdeild bankans í viðbótarlífeyrissparnaði jókst úr 17% í 19%. Nánar er fjallað um þjónustu Landsbankans við aðila á markaði og aðra starfsemi sem tengist fjármálamörkuðum í kaflanum Markaðir.

Helstu áherslur í nýrri stefnu um stafræna tækni

 • Sjálfsafgreiðsla fyrsti valkostur til að létta viðskiptavinum lífið.
 • Sjálfvirknivæðing ferla til að auka ánægju viðskiptavina.
 • Hagnýting gagna til að veita betri ráðgjöf og til að viðskiptavinir geti stýrt sínum fjármálum betur.
 • Samstarf við önnur traust fyrirtæki til að auka ávinning viðskiptavina.

Verkstraumur 3: Rafræn þjónusta við viðskiptavini

Á árinu 2016 mótaði Landsbankinn sér skýrari framtíðarsýn í stafrænni tækni og lagði grunn að stefnu sem unnið verður eftir til ársins 2020.

Í nýrri stefnu er lögð enn meiri áhersla á sjálfsafgreiðslu sem fyrsta valkost í bankaviðskiptum. Áhersla á stafræna tækni á einnig að stuðla að aukinni skilvirkni innan bankans.

Nánar er fjallað um nýjungar og tæknibreytingar í starfsemi Landsbankans í kaflanum Þróun í bankaviðskiptum.

Sólarlag

Verkstraumur 4: Hagkvæmar stoðeiningar

Árangur náðist við að auka hagkvæmni í rekstri. Rekstarkostnaður fer lækkandi og stöðugildum fækkar. Þetta má rekja til hagkvæmari stoðeininga, hagræðingar í fasteignarekstri og minni kostnaðar við upplýsingatækni ef horft er framhjá áhrifum kjarasamninga, svo eitthvað sé nefnt.

Nánar er fjallað um rekstur bankans í kaflanum Fjármál og ársreikningur.

Verkstraumur 5: Nútímalegt tækniumhverfi

Stærsta einstaka verkefni Landsbankans á sviði upplýsingatækni á síðustu árum er innleiðing á nýju innlána- og greiðslukerfi, Sopra, í samstarfi við Reiknistofu bankanna. Verkefnið er mjög margþætt, flókið og mannaflsfrekt. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að kerfið yrði komið í gagnið vorið 2016 en nú eru væntingar um að það verði tekið í notkun á fyrri hluta árs 2017. Kerfið mun leysa mörg önnur og í sumum tilvikum mjög gömul kjarnakerfi af hólmi. Innleiðing á nýju kerfi er nauðsynleg til að bankinn geti einfaldað og nútímavætt tækniumhverfi sitt enn frekar.

Stöðugildi í árslok

Verkstraumur 6: Hagkvæm samsetning efnahags

Arðsemi bankans án áhrifa af virðisaukningu útlána og skatta á heildarskuldir fer vaxandi.

Mikilvægur áfangi í fjármögnun bankans náðist á seinni helmingi ársins 2016 þegar Landsbankinn gaf út skuldabréf í evrum og sænskum krónum. Evruskuldabréfin voru að fjárhæð 500 milljónir evra til 4½ árs með gjaldaga 15. mars 2021. Þau bera fasta 1,625% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 190 punkta álagi ofan á millibankavexti í evrum. Landsbankinn gaf jafnframt út skuldabréf í sænskum krónum að fjárhæð einn milljarður sænskra króna til fjögurra ára. Skuldabréfin bera hvoru tveggja fasta og breytilega vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 150 punkta álagi ofan á millibankavexti í sænskum krónum. Afrakstur skuldabréfaútgáfnanna var fyrst og fremst nýttur til fyrirframgreiðslu á útgefnum skuldabréfum til LBI hf.

Í október 2016 var lánshæfiseinkunn Landsbankans hækkuð um eitt þrep og er nú BBB/A-2 með jákvæðum horfum.

Landsbankinn vinnur áfram að því að fá heimild til að nota svokallaða innramatsaðferð við mat á útlánáhættu. Liður í þeirri vegferð var innleiðing á nýju lánshæfislíkani fyrirtækja á árinu. Með innramatsaðferð fæst nákvæmara mat á útlánaáhættu sem gerir bankanum betur kleift að stýra samsetningu efnahags til samræmis við undirliggjandi áhættu.

Verkstraumur 7: Árangursmiðuð menning

Ánægja og stolt starfsmanna af því að vinna hjá Landsbankanum jókst á árinu. Mikil áhersla er lögð á árangursmiðaða fyrirtækjamenningu innan Landsbankans og er litið svo á að sterk fyrirtækjamenning sé einn helsti grundvöllurinn að góðum árangri. Á árinu 2016 var markvisst unnið að því að efla fyrirtækjamenningu í bankanum.

Önnur verkefni á sviði upplýsingatækni

 • Lánakerfi bankans voru sameinuð í eitt. Kerfunum hafði fjölgað í kjölfar sameiningar við önnur fjármálafyrirtæki á undanförnum árum.
 • Opnað var fyrir svonefnt API-þjónustuumhverfi.
 • Skjalagerð íbúðalána var sjálfvirknivædd og þar með skilvirkari.
 • Viðskiptatengslakerfi (CRM) hefur verið innleitt hjá flestum sviðum bankans. Með því er haldið markvisst utan um samskipti við viðskiptavini sem gerir bankanum kleift að veita viðskiptavinum betri þjónustu.
Sú aðferðafræði sem Landsbankinn notar til að efla fyrirtækjamenningu snýst um að starfsfólk og einstakar starfseiningar setji sér skýr, mælanleg markmið og ákveði til hvaða aðgerða skuli grípa til að ná markmiðunum á tilsettum tíma.

Á síðasta ári var unnið að því markmiði að auka ánægju viðskiptavina Landsbankans með gagnkvæman ávinning að leiðarljósi. Hvert svið og deildir settu sér undirmarkmið sem tengdist þessu yfirmarkmiði bankans og vann að því, m.a. með vikulegum fundum þar sem fjallað var um árangur hópsins. Gaman er að segja frá því að markmið bankans um aukna ánægju viðskiptavina náðist á síðasta ári.

Stuðningur og eftirfylgni við stjórnendur hefur verið lykilatriði í árangursstjórnun bankans. Stuðningurinn hefur meðal annars falist í fræðslu og þjálfun. Að auki er hverjum hópi fylgt eftir af þjálfara sem kemur úr starfsliði bankans. Þjálfarinn styður við stjórnanda hópsins og veitir honum ráð. Einnig hefur verið tekinn í notkun hugbúnaður til að halda utan um markmið og verkefni hvers hóps og er árangur hópsins skráður vikulega. Framkvæmdastjórar fylgjast náið með árangri sinna hópa og bankastjóri fylgist með að bankinn í heild sé að ná tilætluðum árangri.

Nánar er fjallað um starfsfólk og starfsmannastefnu bankans í kaflanum Mannauður.

Togari

Hrein afkoma ríkisins af Landsbankanum nemur 138 milljörðum króna

Við stofnun Landsbankans hf. haustið 2008 lagði íslenska ríkið bankanum til 122 milljarða króna. Þar með eignaðist ríkið 81,33% hlut í bankanum. Breyting varð á eignarhaldi Landsbankans frá og með 11. apríl 2013 þegar 18,67% hlutur, sem var í eigu Landskila fyrir hönd slitastjórnar LBI hf., rann til íslenska ríkisins og Landsbankans í samræmi við samkomulag þessara aðila frá desember 2009. Eignarhald ríkisins í tengslum við þennan samning er 99,4% þegar tekið hefur verið tillit til útistandandi hlutabréfa og bréfa í eigu bankans sjálfs, eða sem nemur rétt um 250 milljörðum króna, ef miðað er við eigið fé bankans.

Frá stofnun Landsbankans til og með ársins 2016 námu arðgreiðslur bankans til ríkisins um 81 milljarði króna, eða um tveimur þriðju hlutum af upphaflegu kaupverði. Þegar tekið hefur verið tillit til vaxtakostnaðar ríkisins, arðgreiðslna og upphaflegs kaupverðs, nemur kostnaður ríkisins vegna kaupa á eignarhlut sínum í bankanum 111,5 milljörðum króna en verðmæti hlutarins nam um áramót um 250 milljörðum króna. Hrein afkoma ríkisins samkvæmt þessu er því um 138 milljarðar króna.

Ríkissjóður heldur auk þess á hlutum í Landsbankanum vegna eignarhalds ríkisins í Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Norðurlands en ekki er tekið tillit til þessara hlut í ofangreindri samantekt. Þegar einnig hefur verið tekið tillit til hluta sparisjóðanna er hlutdeild ríkisins í Landsbankanum 99,7%.

Afkoma ríkisins af eignarhlut í Landsbankanum

Afkoma
Hreinn fjármagnskostnaður -111.514
Hlutdeild í eigin fé 249.663
Hrein afkoma ríkisins 138.148

* Miðað við bókfært eigið fé 31.12.2016
Allar tölur í milljónum króna

Stjórnarhættir Landsbankans

Góðir stjórnarhættir Landsbankans leggja grunninn að traustum samskiptum hluthafa, bankaráðsmanna, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun bankans. Á hverju ári gerir Landsbankinn úttekt á því hvort viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti sé fylgt og hvort stjórnarhættir bankans á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.

Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti tilkynnti í desember 2014 að Landsbankinn hefði fengið viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Umsögn Rannsóknarmiðstöðvarinnar var byggð á úttekt á stjórnarháttum sem unnin var af Deloitte í nóvember 2014. Niðurstaða úttektar Deloitte á stjórnarháttum Landsbankans var talin gefa skýra mynd af stjórnarháttum bankans og benda til þess að Landsbankinn geti að mörgu leyti verið öðrum fyrirtækjum fyrirmynd í góðum stjórnarháttum.

Stjórnarháttayfirlýsing

Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og gerir grein fyrir þessum þætti í stjórnarháttayfirlýsingu bankans ár hvert. Þar koma einnig fram nánari upplýsingar um bankaráð og undirnefndir þess.

Lesa stjórnarháttayfirlýsinguna í heild